Innlent

Siðmennt fær sóknargjöld sem söfnuður sé

Jakob Bjarnar skrifar
Séra Vigfús Þór segir að gripið hafi verið til sársaukafullra aðhaldsaðgerða --þrír kórar verið lagðir niður.
Séra Vigfús Þór segir að gripið hafi verið til sársaukafullra aðhaldsaðgerða --þrír kórar verið lagðir niður.
Kirkjan er í miklum fjárhagskröggum en Fréttablaðið greindi frá því í morgun að sóknir á suðvesturhorninu skuldi yfir þrjá milljarða. Séra Vigfús Þór Árnason er sóknarprestur í stærstu sókninni og þeirri sem mest skuldar.

Samtals nema skuldir 36 sókna á suðvesturhorninu rétt yfir þremur milljörðum króna. Grafarvogskirkja er fjölmennasta sóknin, telur vel yfir 18 þúsund sóknarbörn. Hún skuldar líka mest en séra Vigfús segir hana á móti best í stakk búna til að greiða skuldir sínar.

„Söfnuðurinn er stór og við skuldum þó nokkuð, en vegna stærðarinnar, með hundrað milljón króna tekjur á ári, þá stöndum við alltaf í skilum.“

Séra Vigfús segir kirkjuna vilja greiða skuldirnar hraðar niður, skuldir sem eru vegna kirkjubygginga. Staðan er vissulega áhyggjuefni.

„Jú, sko... það er alvarlegt þetta sem kom fram frá innanríkisráðuneytinu, síðustu ríkisstjórn, að það hafði verið skorið 25 prósent meira niður hjá kirkjunni en hjá stofnunum sem tengjast innanríkisráðuneytinu í allri kreppunni.

En er þetta ekki vatn á myllu þeirra sem vilja aðskilnað ríkis og kirkju?

„Ég veit það nú ekki, sko. Nú fá allir söfnuðir þessi sömu gjöld, hvort sem það er Siðmennt, Hvítasunnusöfnuður ... allir fá sömu gjöldin. Sóknargjöldin eru greidd til allra, meira að segja kom Siðmennt nú inn sem söfnuður.“

Séra Vigfús leggur áherslu á að þetta sé ekki framlag ríkisins heldur byggir þetta á framlagi einstaklinga, 700 krónum á mann á mánuði og svo hefur verið lengi. En ríkið setti stopp á það fyrir um sex árum síðar. Allar kirkjur byggja sinn rekstargrundvöll á umsaminni hækkun sóknargjalda sem á að fylgja vísitölu og eðlilegum verðlagshækkunum.

„Við erum að vona að innanríkisráðuneytið geri samning þar sem sóknargjöldin muni ná vægi sínu á einhverjum tveimur til þremur árum. Og að hætt verði að skera kirkjuna eins og gert hefur verið.“

Sóknarpresturinn í Grafarvogi segir að gripið hafi verið til allskonar aðhaldsaðgerða og þannig hafi þrír kórar verið lagðir niður í sparnaðarskyni en þó hafi verið reynt að blása til sóknar því kórfrömuðurinn Margrét Pálmadóttir er nú að stýra stúlknakór á vegum kirkjunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×