Innlent

Bráð nauðsyn á læknum í björgunarþyrlum

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Leifur Bárðarson, hjá embætti Landlæknis, segir lækna í þyrlunum auka öryggi.
Leifur Bárðarson, hjá embætti Landlæknis, segir lækna í þyrlunum auka öryggi.
Bráð nauðsyn er á því að hafa lækna í bráðaþyrlum að því er segir í minnisblaði Landlæknis til innanríkisráðuneytisins. Embætti landlæknis hefur skilað innanríkisráðuneytinu minnisblaði sínu um hvort þjónusta læknis í björgunarþyrlu sé nauðsynleg eða hvort hún geti verið veitt af öðrum en læknum, svo sem bráðatæknum.

Öllum læknum sem sinntu vöktum á björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, var sagt upp í sumar. Fyrrverandi innanríkisráðherra sagið upp samningnum um þyrlulækni í janúar sl. en núverandi innanríkisráðherra, í samráði við heilbrigðisráðherra, frestaði uppsögnunum til 1. janúar 2014 og fólu ráðherrarnir Landlækni að skoða málið.

Leifur Bárðarson, hjá embætti Landlæknis, segir að minnisblaðið sé komið í hendur innanríkisráðuneytisins. Leifur staðfesti að það væri niðurstaða embættisins að bráð nauðsyn sé á því að hafa lækna í þyrlunum. Það sé síðan að auki faglegt mat Landlæknis, burt séð frá minnisblaðinu, að læknar skuli hiklaust vera um borð í bráðaþyrlunum. Læknir á staðnum auki öryggi, ekki aðeins þeirra sem þarf að sækja, heldur einnig annarra sem starfa í þyrlunum, eins og td. sigmanna og annarra. Það sé síðan verkefni stjórnvalda en ekki Landlæknis að finna út hvernig þessum málum sé háttað í framkvæmd.

Viðar Magnússon, yfirlæknir bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa, lagði starf sitt að veði í bréfi til heilbrigðisyfirvalda þar sem hann útskýrði nauðsyn þess að hafa áfram lækni í þyrlunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×