Innlent

Um þriðjungur vildi Gísla Martein sem oddvita

Boði Logason skrifar
Um 30 prósent vildi að Gísli Marteinn myndi leiða lista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor, áður en hann tilkynnti að hann væri hættur í pólitík.
Um 30 prósent vildi að Gísli Marteinn myndi leiða lista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor, áður en hann tilkynnti að hann væri hættur í pólitík.
Um þriðjungur borgarbúa vildi að Gísli Marteinn Baldursson leiddi lista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar næsta vor áður en hann tilkynnti að hann væri hættur í pólitík.

Þetta kemur fram í könnun Capacent Gallup sem var gerð í síðasta mánuði. Könnunin var gerð dagana 6. til 16 september fyrir hóp sem kallar sig Áhugafólk um borgarmál, en Gísli Marteinn tilkynnti hinn 25. september að hann væri hættur í stjórnmálum og héldi til starfa hjá Ríkisútvarpinu. 

Tæplega 1300 Reykvíkingar, 18 ára og eldri, voru spurðir hverja af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins þeir vildu sjá leiða lista flokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Langflestir nefndu Gísla Martein, eða 30,4%, næstflestir Júlíus Vífil Ingvarsson, eða 15,8%.

Þar á eftir kom Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir með 12,2% og Kjartan Magnússon 4,7%. Um 37% vildu enga af borgarfulltrúum flokksins.

Svarhlutfallið í könnuninni var 64,3%.

Skjáskot úr könnuninni, sem var framkvæmd af Capacent Gallup daganna 6. - 16. september.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×