Innlent

Kynbundinn launamunur minnkar hjá Reykjavíkurborg

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Á síðustu 14 árum hefur launamunur kynja hjá Reykjavíkurborg dregist saman um 11,5%
Á síðustu 14 árum hefur launamunur kynja hjá Reykjavíkurborg dregist saman um 11,5% Mynd/Anton Brink
Á síðustu 14 árum hefur launamunur kynja hjá Reykjavíkurborg dregist saman um 11,5%. Árið 1999 voru dagvinnulaun karla 14,9% hærri en dagvinnulaun kvenna. Í október 2012 var munurinn á milli karla og kvenna 3,4%.

Borgarstjóri hefur lagt til aðgerðir í ellefu liðum til að útrýma kynbundnum launamun hjá Reykjavíkurborg. Tillögurnar eru byggðar á skýrslu aðgerðahóps um kynbundinn launamun sem skipaður var af borgarstjóra 3. apríl 2012. Aðgerðahópurinn skilaði skýrslunni í byrjun september en þar er farið í ítarlegu máli yfir þróun kynbundins launamunar hjá Reykjavíkurborg og lagðar til aðgerðir til að útrýma honum.

Það er í yfirvinnu- og akstursgreiðslum þar sem launamunurinn birtist helst. Heildarlaun karla í fullu starfi eru 5,8% hærri en kvenna. Leiðréttur launamunur kynja minnkar hjá Reykjavíkurborg ef bornar eru saman niðurstöður úttekta sem gerðar voru í október á árinu 2009 og í sama mánuði á árinu 2012.

Í krónum talið dró saman í heildarlaunamun kynjanna frá 2009 til 2012 – úr 48.654 kr.- í 35.944 kr.- Konur eru rösklega 73% af starfsmönnum borgarinnar en karlar tæplega 27%. Tillaga borgarstjóra um aðgerðir til að útrýma kynbundnum launamun verða ræddar á fundi borgarstjórnar  þriðjudaginn 1. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×