Innlent

Gríðarlega sáttur með þá ákvörðun sem ég tók

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Halli í Botnleðju og Davíð Guðbrandsson fara með aðalhlutverkin í nýrri auglýsingu frá Símanum.
Halli í Botnleðju og Davíð Guðbrandsson fara með aðalhlutverkin í nýrri auglýsingu frá Símanum.
Ný auglýsing frá Símanum hefur vakið athygli að undanförnu. Haraldur Freyr Gíslason, eða Halli í Botnleðju eins og hann er betur þekktur, fer með aðalhlutverkið í auglýsingunni. Honum var í kringum aldamót boðið að gerast trommuleikari bresku hljómsveitarinnar Coldplay sem í dag er ein stærsta hljómsveit í heimi. Halli hafnaði tilboði sveitarinnar eins og frægt er orðið.

Í auglýsingunni er lagið Þið eruð frábær útsett í nettum Coldplay-stíl ef svo má að orði komast. Meðlimir Botnleðju sáu sjálfir um að endurútsetja lagið sem er mjög ólíkt upprunalegu útgáfunni. Arnar Guðjónsson úr hljómsveitinni Leaves sá um upptöku.

Halli segir að það litlar sem engar líkur á því að sveitin leiki lagið í þessari nýju útgáfu á tónleikum í framtíðinni. „Við erum nokkuð sáttir með þessa útgáfu en ég held að það sé nokkuð öruggt að við munum ekki taka lagið í þessari útgáfu á tónleikum,“ segir Halli.

„Þetta er auðvitað sönn saga úr mínu lífi og ég er gríðarlega sáttur með þá ákvörðun sem ég tók á sínum tíma. Ég hefði ekki viljað vera í þessari hljómsveit og er mjög sáttur með lífið. Fyrsta platan þeirra var ágæt en það sem hefur fylgt í kjölfarið hefur ekki verið minn tebolli. Þeir sendu mér bréf og buðu mér að spila með sér á tónleikaferðalagi. Ég fékk demó frá þeim sem mér hreif mig alls ekki þannig að ég sagði nei. Ég sé ekki eftir því.“

Davíð Guðbrandsson fer með hlutverk Chris Martin, söngvara Coldplay í auglýsingunni. Halli segir það hafa verið gaman að vinna að gerð auglýsingarinnar. „Hann nær Martin nokkuð vel og það var mjög gaman að vinna með honum.“

Sjá má lagið Þið eruð frábær í heild sinni í myndbandinu hér að neðan.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×