Innlent

Jón Gnarr segir föður sinn hafa goldið fyrir að vera ekki sjálfstæðismaður

Elimar Hauksson skrifar
Segir faðir sinn hafa hlotið lítinn frama hjá lögreglunni þótt hann væri bæði vandvirkur og duglegur. Það að hann var "kommi“ hafi haft félagsleg- og efnahaglseg áhrif á fjölskyldu hans.
Segir faðir sinn hafa hlotið lítinn frama hjá lögreglunni þótt hann væri bæði vandvirkur og duglegur. Það að hann var "kommi“ hafi haft félagsleg- og efnahaglseg áhrif á fjölskyldu hans.
Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, birti í dag mynd af föður sínum á Facebook síðu sinni. Með myndinni fylgir texti þar sem Jón fer yfir sögu föður síns sem starfaði í lögreglunni.

Hann segir föðir sinn hafa þurft að gjalda fyrir það innan lögreglunnar að vera sósíalisti en ekki sjálfstæðismaður.

„Hann hlaut lítinn frama í starfi þótt hann væri bæði vandvirkur og duglegur. Ég vil meina að Sjálfstæðisflokkurinn og aðallega ákveðnir menn innan hans hafi lagt pabba og skoðanabræður hans, í hálfgert einelti. Það að pabbi var "kommi" en aðallega ekki í Sjálfstæðisflokknum hafði félagsleg- og efnahagsleg áhrif á fjölskyldu mína,“ skrifar Jón.

Jón Gnarr tekur þó fram að hann beri engann kala til Sjálfstæðisflokksins vegna þessa, tímarnir hafi einfaldega verið svona þá.

Hann segist vera stoltur af því að vera sonur föður síns en hann hafi ungur ákveðið að hann vildi vera kallaður Jón Gnarr en ekki Jón Gunnar Kristinsson, eins og hann var skírður. Hann furðar sig á því hve margir sjálfstæðismenn halda í skírnarnafnið hans og veltir fyrir sér hvort tilgangur þess sé að halda áfram einhverskonar einelti gegn föður hans.

„Það merkilega er að þeir sem kalla mig Kristinsson eru gjarnan Sjálfstæðismenn. Morgunblaðið, málgagn Sjálfstæðisflokksins, gerir það nær daglega og á einhvern furðulegan hátt er eins og einelti Sjálfstæðisflokksins gegn pabba haldi áfram í gegnum mig.“

Jón segist ekki skammast sín fyrir föðir sinn og segist í dag vera sáttur við að vera sonur þessa merkilega, hrausta og óvenjulega manns. Hann fer að endingu yfir það sem hann kallar þrjú stig dauðans og þakkar Morgunblaðinu.

Það er sagt að dauðinn hafi þrjú stig. Það fyrsta er þegar maður gefur frá sér síðasta andvarpið og augun ljúkast aftur. Annað stigið er þegar maður er jarðaður. Þriðja og síðasta stigið er þegar einhver segir nafnið manns í síðasta sinn. Ég vil því þakka Morgunblaðinu fyrir að halda minningu pabba míns á lofti og hans merkilegu sögu,“ skrifar Jón.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×