Innlent

"Fólk verður að hafa varann á“

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Formaður Félags leigumiðlara segir að leigutakar eigi að hafa varann á þar sem að sumir leigusalar nýti sér slæmt ástand á leigumarkaðnum.

Mikil umræða hefur verið undanfarið um ástandið á leigumarkaðnum og hafa einhverjir komist svo að orði að það sé alvarlegt. Fjöldi fólks situr um hverja íbúð sem auglýst er til leigu og hafa leigusalar því úr nógu að velja og geta sett ýmis skilyrði, sem setja mætti spurningamerki við, þar á meðal leiguverðið.

Svanur Guðmundsson, formaður Félags leigumiðlara, segir marga leigutaka hafa farið illa út úr því að hafa ekki varann á þegar íbúð er tekin á leigu beint af leigusölum. „Menn eru að semja um styttri uppsagnarfresti heldur en húsaleigulögin kveða á um,“ segir Svanur. Hann segir suma leigusala einnig halda aftur tryggingum í lok leigusamnings.

Svanur er á því að leigutakar ættu að hafa það á bakvið eyrað að þeir séu öruggari ef aðstoð er fengin hjá leigumiðlurum eða lögfræðingum við samningsgerð. „Það verður að hafa varann á,“ segir hann. Það hafi sýnt sig að fólk þarf að passa sig þar sem að það eru til óprúttnir aðilar og vondir leigusalar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×