Innlent

Stór mistök að hætta aðildarviðræðum við ESB

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Þorgerður segir öfgar einkenna alla umræðu og segir að þrátt fyrir að hún hafi alltaf verið á móti því að færa flugvöllinn úr Vatnsmýri megi alveg hlusta á röksemdir hinna.
Þorgerður segir öfgar einkenna alla umræðu og segir að þrátt fyrir að hún hafi alltaf verið á móti því að færa flugvöllinn úr Vatnsmýri megi alveg hlusta á röksemdir hinna.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra, telur það hafa verið mistök að hætta aðildarviðræðum við ESB. Í viðtali við Fréttablaðið í dag segist hún hafa trú á Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra og Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra.

„Ég treysti Bjarna, ég hef unnið með honum og veit hvaða mann hann hefur að geyma. Ég segi við fólk sem er að gagnrýna hann og Sigmund Davíð: Gefið þeim svigrúm, sýnið þeim sanngirni,“ segir Þorgerður í viðtalinu en segir jafnframt að þeim verði ekki hlíft ef þeir vindi sér ekki í þau verkefni sem fólk kallar eftir.

„Ég hef trú á þeim þótt þeir hafi gert stór mistök með því að hætta aðildarviðræðum við ESB. Það var heimskulegt og ekki í þágu íslenskra hagsmuna.“

Þorgerður segist vera talsmaður öflugs íslensks sjávarútvegs og íslensks landbúnaðar. „En ég vil forðast umræður eins og: Annaðhvort ert þú á móti Evrópusambandinu eða þú ert ekki sannur Íslendingur. Annaðhvort viltu landbúnaðarkerfi eins og það er nú eða þú ert á móti bændum. Annaðhvort ertu með flugvellinum eða á móti allri landsbyggðinni.“

Hún segir öfgar einkenna alla umræðu og segir að þrátt fyrir að hún hafi alltaf verið á móti því að færa flugvöllinn úr Vatnsmýri megi alveg hlusta á röksemdir hinna sem vilja hann burt.

„Það er auðvitað fullt af verðmætum í Vatnsmýrinni. Við sem styðjum flugvöll þar verðum að minnsta kosti að geta svarað því hvert við viljum að byggðin þróist á höfuðborgarsvæðinu og hver eigi að bera kostnaðinn af því. Þessi öfgakennda umræða á öllum málasviðum finnst mér skemma mest í íslensku samfélagi. Það er allt „annaðhvort eða“. Ég er orðin pínu þreytt á því.“

Viðtalið við Þorgerði Katrínu í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×