Innlent

ESB: Deildir Íslands og Svartfjallands sameinaðar

Þorgils Jónsson skrifar
Stækkunarskrifstofa ESB mun halda áfram að vinna að málefnum Íslands, en fækka starfsfólki.
Stækkunarskrifstofa ESB mun halda áfram að vinna að málefnum Íslands, en fækka starfsfólki. Mynd/Europa.eu
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segist munu hafa starfsfólk til að sinna málefnum Íslands á meðan Ísland er í umsóknarferli.

Þetta kemur fram í svari stækkunarskrifstofu framkvæmdastjórnarinnar við fyrirspurn fréttastofu, en í útvarpsþættinum Harmageddon í morgun sagði fjölmiðlamaðurinn Þorfinnur Ómarsson að Íslandsdeild stækkunarskrifstofunnar hefði verið lögð niður og málefni Íslands yrðu færð undir deild sem tilheyri Svartfjallalandi.

Nánar tiltekið mun, að sögn talsmanns stækkunarskrifstofu, taka til starfa strax í næstu viku ný deild sem sér um bæði Ísland og Svartfjallaland.

„Að sjálfsögðu fer fjöldi starfsfólks sem vinnur að málefnum hvers lands eftir vinnuálagi sem fylgir, og þar sem [íslenska] ríkisstjórnin hefur tilkynnt um hlé á viðræðum hefur vinna við það dregist saman. Það hefur hins vegar engin sérkunnátta tapast og Framkvæmdastjórnin getur hafið vinnu við samningaferlið án tafar ef til þess kemur."



Í Fréttablaðinu í dag er skýrt frá því að samninganefnd Íslands við ESB og samningahópar hafi verið leystar upp.

Framkvæmdastjórnin segir þá ákvörðun utanríkisráðherra ekki koma á óvart í ljósi þess að ríkisstjórnin hafi margoft lýst því yfir að ekki standi til að halda áfram aðildarviðræðum.

(Uppfært: Greininni hér að ofan var breytt lítillega kl. 15:00 þar sem skýrar var kveðið á um að ný deild verði sett á laggirnar sem sjái bæði um Svartfjallaland og Ísland.) 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×