Innlent

Tekist á um friðhelgi einkalífsins

Heimir Már Pétursson skrifar
Stjórnarandstaðan leggur til að Hagstofufrumvarpi forsætisráðherra verði vísað frá vegna þess að það gangi of nærri friðhelgi einkalífsins. Stjórnarflokkarnir telja hins vegar mikilvægt að safna saman víðtækum upplýsingum um skuldastöðu allra landsmanna til að tryggja að boðaðar aðgerðir vegna heimilanna nái fram að ganga.

Frumvarp Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um Hagstofu Íslands kemur til atkvæðagreiðslu á Alþingi í dag. Verði það að lögum verður Hagstofunni heimilað að safna gögnum um alla lánasögu einstaklinga og fyrirtækja í landinu, greina þau niður eftir kyni, stétt, launum og svo framvegis og fá svör við því hvers vegna fólk tók viðkomandi lán. Og þá er ekki einungis verið að tala um íbúðarlán, heldur öll lán, þar með talin yfirdráttarlán.

Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata sem mælir fyrir nefndaráliti minnihlutans á frumvarpinu segir það ganga allt of langt. Tilgangur þess virðist óljós, nema þá helst að safna upplýsingum um heimili í greiðslu- og skuldavanda vegna hrunsins.

„Og því velti ég fyrir mér hvers vegna við þurfum þessar upplýsingar um alla? Því nú hef ég ítrekað bent á að það er hægt að fara aðra leið. Tæknin er til staðar, hún er í notkun. Það er hægt að fara leið sem tryggir upplýst samþykki hvers og eins aðila sem kærir sig um að vera með í þessu líka brýna verkefni,“ sagði Helgi Hrafn við lok þriðju umræðu á Alþingi í gær.

Líneik Anna Sævarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins mælir fyrir nefndaráliti meirihlutans og segir að heildarmynd á stöðu heimilanna sé lykilatriði í málinu.

„Að við horfum á heildarmyndina, heildarskuldastöðu og greiðslubyrði mismunandi hópa í landinu. Ekki bara þess hóps sem er í vanda vegna þess að við þurfum að fá samanburð á milli hópa til að sjá hvaða áhrif fyrirhugaðar aðgerðir stjórnvalda hafa,“ segir Líneik.

Stjórnarandstaðan dregur ekki í efa að gott sé að hafa þessar upplýsingar og að hluti heimilanna eigi í miklum skulda og greiðsluvanda. Hins vegar sé tekist þarna á um stjórnarskrárvarin réttindi um friðhelgi einkalífsins.

Guðbjartur Hannesson þingmaður Samfylkingarinnar segir að þess vegna þurfi að skoða þessi mál betur og best væri að vísa frumvarpinu frá að þessu sinni eins og minnihlutinn leggur til.

„Í fyrsta lagi er með frumvarpinu gengið á stjórnarskrárvarin réttindi, til friðhelgi einkalífs, s.b.r. 71. grein stjórnarskrárinnar og jafnframt ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.  Og umsagnir þeirra sérfræðinga sem þar hafa komið að málinu hafa raunar staðfest það að þetta fer inn á friðhelgi einkalífsins,“ segir Guðbjartur.

Svandís Svavarsdóttir þingmaður Vinstri grænna tók í sama streng og sagði málið ekki einfalt.

„Enginn í sjálfu sér véfengir að gengið er á stjórnarskrárbundin réttindi til friðhelgi einkalífsins. En um leið eru menn ósammála um það hvort nægilegir almannahagsmunir séu skilgreindir , nægilega ríkir, til þess að unt sé að víkja þeim réttindum  til hliðar,“ segir Svandís.

Hagstofufrumvarpið kemur til lokaatkvæðagreiðslu um klukkan þrjú í dag og verður fyrsta stóra mál ríkisstjórnarinnar nái það fram að ganga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×