Innlent

„Göfugt verkefni að afnema kynbundinn launamun“

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson vill afnema kynbundinn launamun.
Bjarni Benediktsson vill afnema kynbundinn launamun. mynd/365
Bjarni Benediktsson fjármála og efnahagsráðherra vill afnema kynbundinn launamun. Hann segir að það sé gjörsamlega óþolandi að fólki sé mismunað á grundvelli kyns þegar unnin eru sambærileg störf og fólk gegnir sambærilegri ábyrgð.

Það sé misrétti sem allir  vilji vinna gegn. Hvernig það verði gert sé stórt úrlausnarefni. Bjarni lét þessi ummæli falla í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær.

Það var Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar  sem hóf umræðuna. Hann spurði  ráðherrann að því hvort ekki væri hægt að skapa samstöðu um það á vettvangi stjórnmálanna að  leggja áherslu á það í væntanlegum kjarasamningum að binda enda á að helmingur landsmanna væri hlunnfarinn um eðlileg laun fyrir vinnu sína.

Hvort ekki væri hægt að ná víðtækri sátt um að það verði forgangsverkefni að auka réttlæti á vinnumarkaði í komandi kjarasamningum bæði á almenna vinnumarkaðnum  sem og hinum  opinbera.

Bjarni sagði þetta mikilvægt og göfugt verkefni til að vinna að. Reynsla undanfarinna  ára sýndi hins vegar að hér væri hægara um að tala en í að komast. Það sé mikilvægt að allir leggi sitt lóð á vogarskálarnar, hið opinbera sé tilbúið að hlusta eftir ábendingum um það sem geti skilað árangri  og það kalli eftir því sama frá aðilum á hinum frjálsa markaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×