Enski boltinn

Suarez vill vinna aftur traust stuðningsmanna Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez á æfingu með Liverpool.
Luis Suarez á æfingu með Liverpool. Mynd/NordicPhotos/Getty
Stuðningsmenn Liverpool eru ekki búnir að gleyma Úrúgvæmanninum Luis Suarez en frábært gengi liðsins án hans hefur algjörlega breytt umræðunni í kringum félagið. Liverpool hefur unnið þrjá fyrstu leiki tímabilsins án Suarez sem gerði allt til að losna frá Anfield en er nú tilbúinn að vinna hug og hjörtu stuðningsmannanna á nýjan leik.

Luis Suarez hitti blaðamenn í Úrúgvæ þar sem hann er nú staddur í landsliðsverkefni en Úrúgvæ mætir Perú og Kólumbíu á næstu dögum í undankeppni HM 2014.

„Þessu máli lauk fyrir löngu fyrir mér. Ég tók þá ákvörðun að spila áfram með Liverpool. Ég vil vera áfram hjá Liverpool og ætla að berjast fyrir klúbbinn," sagði Luis Suarez en hann á enn eftir að taka út tvo leiki af leikbanni sínu sem Suarez var dæmdur í fyrir að bíta Chelsea-manninn Branislav Ivanovic.

„Ég mun fara aftur til Liverpool eftir þetta landsliðsverkefni og vonandi verð ég sami leikmaður áður og ennfremur leikmaður sem stuðningsfólkið getur treyst á. Ég hef sagt að ég vilji spila í Meistaradeildinni en þegar það gerðist ekki, þá vissi ég samt sem áður að ég yrði ánægður að eyða framtíðinni hjá Liverpool," sagði Suarez.

Úrúgvæ er eins og er ekki meðal þeirra fjögurra þjóða sem komast beint á HM en Úrúgvæ situr sem stendur í fimmta sæti sem myndi skila liðinu umspilsleikjum við Jórdaníu eða Úsbekistan.

„Ég ætla að einbeita mér að því að undirbúa mig fyrir fyrsta leik með Liverpool og það er gott fyrir mig að fá á meðan tækifæri til að spila með Úrúgvæ. Það eru fjórir leikir framundan sem ráða því hvort við komust á HM. Ég vil skila mikilvægu hlutverki í þessum leikjum," sagði Suarez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×