Innlent

Með ruslatunnu í heitapottinum

Elimar Hauksson skrifar
Hafnfirðingar etja af kappi um bestu blátunnumyndina
Hafnfirðingar etja af kappi um bestu blátunnumyndina MYND/blátunnumyndakeppnin
Hafnarfjarðarbær hefur ákveðið að auka endurvinnslu á sorpi frá heimilum í bænum með innleiðingu á sérstakri endurvinnslutunnu fyrir pappírsúrgang, blárri pappírstunnu.

Af því tilefni hefur verið stofnað til myndasamkeppni á netinu um bestu blátunnumyndina í Hafnarfirði og lofar sú keppni mjög góðu.

Síðan var tekin í gagnið um helgina og mjög góðar myndir hafa nú þegar ratað inn á síðuna. 

Það er Margrét Gauja Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, sem stendur fyrir samkeppninni ásamt manni sínum, Davíð Arnari.

„Ég er búin að vera með þetta verkefni á heilanum í tvö ár í störfum mínum í umhverfis- og framkvæmdaráði Hafnarfjarðarbæjar,“ segir Margrét en bærinn er nú í óða önn að að útdeila blátunnum til heimila í Hafnarfirði.

„Ég og maðurinn minn sáum að margir Hafnfirðingar voru að pósta skemmtilegum myndum af nýju flokkunartunnunum og í kjölfarið ákváðum við að efna til myndasamkepnni,“ segir Margrét en hjónin lofa veglegum vinning fyrir bestu myndina.

„Aðalvinningurinn er veglegt matarboð og dekur á heimili okkar, Bjarnabæ, hér í Hafnarfirði þar sem maðurinn minn mun elda dýrindis máltíð. Við tvö erum í dómnefndinni og komum til með að velja bestu myndina. Okkur er alveg sama þó vinningshafinn sé kolókunnugur!“ segir Margrét.

Það er ljóst að í Hafnarfirði er í uppsiglingu hörð samkeppni um bestu blátunnumyndina og bíða eflaust margir Hafnfirðingar í ofvæni eftir nýju tunnunni til að geta tekið þátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×