Fótbolti

Neymar á fullri ferð upp markalista Brasilíumanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar.
Neymar. Mynd/AFP
Það hafa margir frábærir fótboltamenn og miklir markaskorarar spilað með fimmföldum heimsmeisturum Brasilíu í gegnum tíðina. Nú er einn á góðri leið með að komast í hóp með þeim bestu.

Brasilíski framherjinn Neymar er bara 21 árs gamall en hann er strax kominn upp í 18. sæti yfir markahæstu landsliðsmenn Brasilíu frá upphafi. Neymar skoraði sitt 25. landsliðsmark í 6-0 sigri á Ástralíu í gær.

Neymar hefur skorað 25 mörk í 41 landsleik en þar af hafa átta markanna komið í 15 landsleikjum hans á þessu ári. Neymar lék sinn fyrsta landsleik árið 2010 en hefur skorað sjö mörk eða fleiri undanfarin þrjú ár.

Pelé á brasilíska markametið en hann skoraði 77 mörk í 92 landsleikjum. Ronaldo komst upp í 62 mörk á sínum ferli og Romário er í þriðja sætinu með 55 mörk.

Neymar vantar sjö mörk til þess að komast inn á topp tíu listann en næstir fyrir ofan hann núna í 16. og 17. sæti eru þeir Robinho og Rivellino, báðir með 26 mörk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×