Skoðun

Allir vegir færir - með NPA

Lilja Kristjánsdóttir skrifar
-  Á hverjum degi get ég sjálf ákveðið hvort ég fer í sturtu þegar ég vakna eða áður en ég fer að sofa.

- Á hverjum degi get ég sjálf ákveðið í hvaða fötum ég ætla að vera.

- Á hverjum degi get ég sjálf ákveðið hvað ég vil borða þann daginn og hvenær.

- Ég get farið í bíó, á kaffihús og á tónleika þegar mig langar.

- Á hverjum degi get ég sjálf ráðið hvenær ég fer að sofa á kvöldin.

Og það sem mestu máli skiptir - Ég get sjálf ráðið hvar ég á heima -  með fjölskyldu minni.

Eins og ástatt er hjá okkur Íslendingum í dag erum við á meðal þróunarlanda þegar kemur að málefnum fatlaðs fólks. Hér á landi þykir ekki sjálfsagt mál að fatlað fólk geti búið þar sem það sjálft kýs, borðað það sem það vill, fari í sturtu þegar hentar, eða fari í bíó eða á kaffihús þegar því langar til.

Það þykir ekki heldur sjálfsagður hlutur að fötluð börn alist upp hjá fjölskyldu sinni á sínu eigin heimili eins og þykir eðlilegt fyrir ófötluð börn.

Með notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA, www.npa.is) er hægt að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi á þann hátt sem það sjálft vill. Þá er fatlaða manneskjan verkstjóri yfir sínu eigin aðstoðarfólki og stjórnar sjálft sinni aðstoð. Með NPA getur fatlað fólk farið í sturtu þegar því hentar, ákveðið í hvaða fötum það er, haft það í matinn sem það vill, farið á kaffihús og í bíó þegar því sýnist og ákveðið sjálf hvenær er farið að sofa á kvöldin – vegna þess að fólkið sjálft hefur þá aðstoð sem hentar þeim til þess að framkvæma alla þessa hluti.

Með NPA getur fatlað fólk búið þar sem það sjálft vill og umgengist fjölskyldu og vini þegar það vill, og fötluð börn geta alist upp á sínu eigin heimili, hjá sinni fjölskyldu.

Ég hleyp 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu í ár fyrir NPA miðstöðina. Fyrir mér – eins og vonandi öllum öðrum – er mikilvægt að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi og búið við sömu mannréttindi og ófatlað fólk.

Með NPA getur það orðið að veruleika.




Skoðun

Sjá meira


×