Innlent

Allt að 75 prósent einstæðra meðlagsgreiðenda á vanskilaskrá

Jóhannes Stefánsson skrifar
„Okkar mat er það að yfir helmingur umgengnisforeldra sé á vanskilaskrá og allt að 75 prósent þeirra sem eru einstæðir séu á vanskilaskrá," segir Gunnar Kristinn Þórðarson, formaður Samtaka meðlagsgreiðenda.

Meðlagsgreiðendur standa verulega höllum fæti í samfélaginu samkvæmt Gunnari. Hann sakar Innheimtustofnun sveitarfélaga um ólögmætt framferði í störfum sínum.

"Gunnar, hvað er það í framgöngu innheimtustofnunar sem er ámælisvert?"

„Það er annars vegar það að innheimtustofnun fer ekki að stjórnsýslulögum né lögum um innheimtustofnun við innheimtu meðlaga. Hún virðir ekki andmælarétt né upplýsingaskyldu gagnvart meðlagsgreiðendum þegar kemur að innheimtuaðgerðum," segir hann.

Samkvæmt reglugerð um meðlög ber launagreiðendum að halda eftir allt að helming af heildarlaunum meðlagsgreiðanda óski Innheimtustofnun eftir því.

Hafa alræðisvald yfir fjárhagslegum högum

„Þeir hafa alveg alræðisvald yfir fjárhagslegum högum meðlagsgreiðenda og geta gengið allt of langt í því að ganga að eigum og ráðstöfunartekjum meðlagsgreiðenda algjörlega óháð þeim kostnaði sem að felst í því að ala upp skilnaðarbörn," segir Gunnar. „Það sem er alvarlegt í þessu er að þarna er innheimtustofnun og stofnanir sveitafélaganna að tálma umgengni milli föður og barns. Eins og Umboðsmaður barna bendir á er það ekki forsvaranlegt," bætir hann við.

Meðlagsgreiðendur eru skráðir sem barnslausir einstæðingar í þjóðskrá þrátt fyrir að vera með barn á framfæri, til viðbótar við það að greiða meðlag.

Í bréfi frá umboðsmanni barna vegna athugasemda samtakanna segir að "mikilvægt sé að mati umboðsmanns barna að ríki og sveitarfélög líti ekki á umgengnisforeldra sem barnlausa einstaklinga heldur taki tillit til þess að þeir séu með barn á framfæri." Samspil reglna um fjárhagslega aðstoð og verulega íþyngjandi reglna um meðlagsgreiðslur leiða að mati samtakanna til þess að meðlagsgreiðendur standa verulega höllum fæti í samfélaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×