Innlent

Bókum stolið af Hlemmi

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Bóksafninu á Hlemmi var stolið á menningarnótt. Þær Ágústa Sveinsdóttir, Ólöf Rut Stefánsdóttir og Gígja Hólmgeirsdóttir höfðu séð um að safna bókunum saman.
Bóksafninu á Hlemmi var stolið á menningarnótt. Þær Ágústa Sveinsdóttir, Ólöf Rut Stefánsdóttir og Gígja Hólmgeirsdóttir höfðu séð um að safna bókunum saman. mynd/365
Bókum í tímabundnu bókasafni á Hlemmi var stolið á Menningarnótt. Bókunum hafði verið komið fyrir á Hlemmi til þess að stytta gestum bið og gera Hlemm notalegri.  Þetta var liður í verkefninu Torg í biðstöðu á vegum Reykjavíkurborgar.

Það eru þrjár ungar konur, Ólöf Rut Stefánsdóttir vöruhönnuður og listaháskólanemarnir Ágústa Sveinsdóttir og Gígja Hólmgeirsdóttir sem hafa haft það verkefni í sumar að vinna að endurbótum á Hlemmi.

„Við vorum sjálfar búnar að safna fullt af bókum sem við komum fyrir á Hlemmi á föstudeginum fyrir Menningarnótt. Við vorum bjartsýnar á að verkefnið gengi vel og það kom viss bugun yfir okkur þegar við mættum á Hlemm eftir helgina,“ segir Ólöf Rut.

Ólöf Rut segist vonast til þess að fólk skili bókunum aftur eða komi með aðrar nýjar í staðinn.

„Við hvetjum líka alla til þess að koma með gamlar bækur og hjálpa til við að byggja upp þetta sjálfbæra bókasafn. Hugmyndin er að fólk geti tekið bækur og skili þeim svo aftur eða komi með aðrar í staðinn. Þannig að á Hlemmi verði til einskonar skiptibókasafn.“

Ólöf segir þetta vera tilraunaverkefni sem væri gaman að sjá ganga eftir, það sé alltaf notalegt að vera í nærveru bóka og hugmyndin er að gera Hlemm að notalegri stað til að vera á, en hann hefur haft frekar neikvæða ímynd.

„Við skiljum við verkefnið á föstudaginn og þá verður spennandi að sjá hvort að þetta dafni áfram. Á föstudaginn verðum við með uppákomur á Hlemmi ef fólk vill kíkja við, tónlistaratriði og gestabók þar sem fólk getur skrásett ferðir sínar um Hlemm,“ segir Ólöf Rut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×