Innlent

Hent út af Loftinu því hún er með húðflúr

Jakob Bjarnar skrifar
Berglind var ekki með óspektir, hún drekkur ekki. Henni var vísað út vegna þess að hún er með húðlúr á handleggjunum.
Berglind var ekki með óspektir, hún drekkur ekki. Henni var vísað út vegna þess að hún er með húðlúr á handleggjunum. Valli
Fordómar gegn húðflúri virðast við lýði á Íslandi ef marka má atburð sem átti sér stað um síðustu helgi en þá var Berglindi Jóhannesdóttur vísað af veitingastað vegna þess að hún er með tattú á handleggjunum.

„Þetta er alveg... sko, ég drekk ekki og er ekki í neinu rugli. Þeir vildu henda mér út vegna þess að ég er með húðflúr á handleggjunum. Er ekki annar hver maður með tattú í dag? Maður móðgast við svona nokkuð,“ segir Berglind sem starfar sem dagforeldri.

Atburðurinn átti sér stað aðfararnótt sunnudags á veitingastaðnum Loftinu í Austurstræti. Þeir sem reka Loftið voru fyrir stuttu í fréttum vegna þess að mörgum misbauð þegar gestir þurftu að víkja fyrir Gordon Ramsay og hópi honum tengdum. Berglind segir að fyrir aftan sig hafi setið maður, sem einnig var með húðflúr en öllu dekkri á hörund. Þannig að tattú hans var ekki eins áberandi. Honum ofbauð svo að hann yfirgaf staðinn í mótmælaskyni. „Þetta voru skilaboð frá eigandanum; að ég ætti að drífa mig í yfirhöfn. Þarna væri „dress-code“ (snyrtilegur klæðnaður áskilinn). Það var ekki eins og ég væri í neinum druslum.“

Berglind segir að þetta sé ekki neitt krass á handleggjum sínum. Á öðrum handleggnum er nafn dóttur hennar og svo fiðrildi. „Og svo er ég með dreka ofarlega á handleggnum. Á hinum handleggnum er hálfa hermi; með rósum og andlit af konu.“ Berglind telur ljóst að þarna birtist hreinir og klárir fordómar gegn húðflúruðu fólki - þeir sem sagt leynast víða fordómarnir.

Ekki náðist í forsvarsmenn Loftsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×