Fótbolti

Gylfi stefnir á að spila á morgun

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. mynd/stefán
"Það er smá stífleiki aftan í lærinu og það verður athugað með alvarleika þeirra meiðsla síðar í dag," sagði landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson við Vísi í dag.

Gylfi hefur ekkert getað æft með íslenska landsliðinu fyrir leikinn gegn Færeyjum á morgun vegna meiðslanna.

"Ég spilaði á laugardaginn og á sunnudaginn fór ég að verða stífur. Það gerðist ekkert alvarlegt að ég held. Ég var að vonast til að þetta væri farið í dag en það er ekki alveg svo gott."

Gylfi er þó enn vongóður um að geta tekið einhvern þátt í leiknum á morgun.

"Það var tekin ákvörðun um að hvíla mig á æfingum en ég ætla að reyna að vera með fyrst ég er mættur alla leið hingað. Það er hundleiðinlegt að koma heim og gera ekki neitt nema hanga upp á hóteli. Það verða samt ekki teknar neinar áhættur."

Gylfi sagðist vera búinn að tala við lækna Tottenham og þeir höfðu engar áhyggjur af meiðslunum en vildu eðlilega fá að fylgjast með.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×