Innlent

Sigmundur fundar með Obama í Stokkhólmi

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Leiðtogar Íslands og Bandaríkjanna munu sitja við sama borð og snæða kvöldverð eftir rúmar tvær vikur.
Leiðtogar Íslands og Bandaríkjanna munu sitja við sama borð og snæða kvöldverð eftir rúmar tvær vikur.
Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra hefur verið boðið til fundar með Barack Obama Bandaríkjaforseta þann fjórða september næstkomandi. Fundurinn er í boði Fredriks Reinfeldt forsætisráðherra Svíþjóðar og auk Obama munu allir forsætisráðherrar Norðurlandanna sitja fundinn. Fundurinn fer fram í Svíþjóð.

Megintilgangur fundarins er að undirstrika og ræða samvinnu Bandaríkjanna og Norðurlandanna þegar horft er til sameiginlegra áskorana 21. aldar. Leiðtogarnir munu, meðal annars, ræða samstarf í utanríkismálum, eflingu hagvaxtar og þróunar í heiminum, nýjungar er snúa að hreinni orku og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum.

Frá þessu greinir á vef forsætisráðuneytisins en þar er fundurinn kallaður vinnukvöldverður.

Obama verður í Stokkhólmi áður en hann fer á fund G 20 ríkjanna sem haldinn verður í St Pétursborg í Rússlandi. Áður hafði staðið til að fyrir þann fund myndi hann ræða við Pútín Rússlandsforseta í Moskvu, en það breyttist eftir að upp úr sauð á milli Bandaríkjamanna og Rússa vegna uppljóstrarans Edwards Snowden.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×