Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra hefur verið boðið til fundar með Barack Obama Bandaríkjaforseta þann fjórða september næstkomandi. Fundurinn er í boði Fredriks Reinfeldt forsætisráðherra Svíþjóðar og auk Obama munu allir forsætisráðherrar Norðurlandanna sitja fundinn. Fundurinn fer fram í Svíþjóð.
Megintilgangur fundarins er að undirstrika og ræða samvinnu Bandaríkjanna og Norðurlandanna þegar horft er til sameiginlegra áskorana 21. aldar. Leiðtogarnir munu, meðal annars, ræða samstarf í utanríkismálum, eflingu hagvaxtar og þróunar í heiminum, nýjungar er snúa að hreinni orku og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum.
Frá þessu greinir á vef forsætisráðuneytisins en þar er fundurinn kallaður vinnukvöldverður.
Obama verður í Stokkhólmi áður en hann fer á fund G 20 ríkjanna sem haldinn verður í St Pétursborg í Rússlandi. Áður hafði staðið til að fyrir þann fund myndi hann ræða við Pútín Rússlandsforseta í Moskvu, en það breyttist eftir að upp úr sauð á milli Bandaríkjamanna og Rússa vegna uppljóstrarans Edwards Snowden.
Sigmundur fundar með Obama í Stokkhólmi
