Enski boltinn

Guardian mælir með að fylgjast með þessum í ensku deildinni í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Soldado fagnar með Gylfa Þór Sigurðssyni.
Roberto Soldado fagnar með Gylfa Þór Sigurðssyni. Mynd/AFP
Enska úrvalsdeildin hófst klukkan 11.45 með opnunarleik Liverpool og Stoke City á Anfield í Liverpool en umferðina heldur síðan áfram í dag og á morgun en lýkur síðan með leik Man. City og Newcastle á mánudagskvöldið.

Blaðamenn Guardian hafa valið fimm af nýjum leikmönnum deildarinnar sem verður hvað mest spennandi að fylgjast með taka sín fyrstu skref í ensku úrvalsdeildinni. Þetta eru þeir Roberto Soldado, Alvaro Negredo, Wilfried Bony, André Schürrle og Fernandinho.

Roberto Soldado, Tottenham - Keyptur á 26 milljónir punda

28 ára spænskur landsliðsframherji sem er alltaf að og hefur raðað inn mörkum með Valencia-liðinu undanfarin þrjú tímabil en hann skoraði 59 deildarmörk í 101 leik á þessum þremur leiktíðum. Ætlar sér að brjóta tuttugu marka múrinn.

Alvaro Negredo, Manchester City - Keyptur á 20,6 milljónir punda

27 ára spænskur landsliðsframherji sem skoraði sirkusmark fyrir spænska landsliðið í vikunni. Hann er þekktur fyrir að skora allskyns mörk og þau urðu alls 31 í 42 leikjum með Sevilla á síðustu leiktíð. Hefur skorað 7 mörk í 15 landsleikjum.

Wilfried Bony, Swansea City - Keyptur á 12 milljónir punda

24 ára eldfljótur framherji frá Fílabeinsströndinni sem hafði betur í baráttunni við Alfreð Finnbogason um markakóngstitilinn í hollensku deildinni. Skoraði 31 deildarmark í 30 fyrir Vitesse á síðasta tímabili og miklu meira en tvöfaldaði markaskor sitt frá tímabilinu á undan.

André Schürrle, Chelsea - Keyptur á 18 milljónir punda

22 ára fjölhæfur sóknarmaður sem er einn af efnilegustu knattspyrnumönnum Þýskalands. Hann ætti að henta leikstíl Jose Mourinho enda stórhættulegur í skyndisóknum, fljótur og iðinn og tilbúinn að vinna vel fyrir liðið. Hann hefur þegar skorað 7 mörk fyrir þýska landsliðið en var með 11 deildarmörk fyrir Bayer Leverkusen á síðustu leiktíð.

Fernandinho, Manchester City - Keyptur á 18 milljónir punda

28 ára miðjumaður sem hefur spilað í Úkraínu undanfarin átta ár. Þetta er afar fjölhæfur leikmaður sem hefur spilað bæði sem framherji og bakverður en hans aðalstaða er á miðjunni. Stendur og fellur með því hvort að hann og Yaya Touré nái vel saman á miðjunni en þeir hafa allt til alls til að mynda sterkustu miðju ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×