Fótbolti

Katrín: Okkar stærsti leikur hingað til

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Jónsdóttir
Katrín Jónsdóttir Mynd / Daníel
Katrín Jónsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins, fór í bæði viðtöl á íslensku og sænsku þegar stelpurnar hittu blaðamenn á hóteli íslenska liðsins í gær. Katrín fann þá greinilegan mun á áhuga erlendra fjölmiðlamanna á íslenska liðinu.

„Þetta er pínulítið öðruvísi en fyrir hina leikina en það er svo sem ekkert skrýtið. Við erum í Svíþjóð, þeir eru að fylgjast mjög vel með og hafa örugglega talað mjög mikið við andstæðinga Svíþjóðar fyrir hina leikina. Þetta er rosalega stór leikur og okkar stærsti leikur hingað til. Það verður rosalega gaman fyrir okkur og það er frábært að fá Svíþjóð á heimavelli," segir Katrín og bætir við:

„Það verður rosalega stemmning og troðfullur völlur. Maður veit nú þegar að það er erfitt fyrir Íslendinga að fá miða á leikinn af þeim sem vilja koma. Þetta verður bara gaman," en hvernig ræður liðið við ef að það verður púað á íslensku leikmennina.

„Það er yfirleitt þannig að ef að það er púað á mann þá fær maður yfirleitt bara aukaorku. Ég veit ekki hvort að það verði púað á okkur en það verður pottþétt mikil stemmning. Ég veit að það verður fullt af Íslendingum á leiknum og þótt að þeir verði ekki jafnmargir þá eru þeir oft háværari en aðrir þannig að ég veit að okkar stuðningsfólk mun láta í sér heyra," segir Katrín.

Íslenska liðið hefur mætt Svíum tvisvar á árinu og tapað báðum leikjum, fyrst 1-6 á Algarve-mótinu í mars og svo 0-2 í vináttulandsleik í apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×