Fótbolti

Dagný: Ekki þreyttar, bara hungraðar í meira

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir í Halmstad
Dagný Brynjarsdóttir í Halmstad Mynd / Daníel Rúnarsson
Dagný Brynjarsdóttir stökk fram í sviðsljósið með frábærri frammistöðu sinni á móti Hollandi á miðvikudaginn. Þessi 21 árs miðjumaður úr Val skoraði sigurmarkið í leiknum og skaut Íslandi um leið inn í átta liða úrslitin á EM í Svíþjóð. Vísir hitti á Dagnýju á hóteli íslenska liðsins í gær.

„Við erum ekki þreyttar, við erum bara hungraðar í meira. Það er gaman að fá að Svía á heimavelli þeirra. Við ætlum að reyna að skemma drauminn þeirra að vinna titilinn á heimavelli," segir Dagný.

„Þeir eru að vanmeta okkur aðeins og við erum búnar að tapa tvisvar fyrir þeim á árinu. Við erum betri núna heldur en þá og erum að toppa í júlí en ekki mars og april. Við eigum eftir að koma svolítið á óvart," segir Dagný.

„Það er mikilvægt fyrir okkur að spila góða og agaða vörn. Við þurfum að vera skipulagðar og nýta svo færin sem við fáum," segir Dagný. Það kom ekki í ljós fyrr en seint á fimmtudagskvöldið að íslenska liðið væri að fara að mæta Svíunum.

„Við vorum að fylgjast með. Það var reyndar dregið klukkan hálf tólf um kvöldið þannig að við vorum eiginlega allar inn á okkar herbergjum. Við fögnuðum í sitthvoru lagi," segir Dagný.

„Við erum búnar að heyra að það verði uppselt á leikinn. Þetta er stærsti leikur sem íslenskt kvennalið hefur spilað eða bara knattspyrnulið á Íslandi hefur spilað. Ég held að allir séu mjög spenntir. Þær eiga eftir að hafa fólkið með sér en Íslendingarnir eru svo háværir. Okkar fólk átti stúkuna í síðustu tveimur leikjum og ég vona að við fáum fleiri frá Íslandi því að einhverjir eru farnir heim núna," segir Dagný.

Hún er ekki að kippa sér mikið upp við alla athyglina sem hún hefur fengið eftir markið mikilvæga og frammistöðuna á móti Hollandi.

„Ég fékk alveg athygli fyrir að hafa skorað þetta mark en svo verður maður bara að koma sér aftur niður á jörðina og undirbúa sig fyrir næsta leik. Við náðum markmiðinu okkar með því að komast í átta liða úrslit og það þýðir ekkert að hætta þegar markmiðinu eru náð. Við verðum bara að halda áfram og fara lengra," segir Dagný. En hvað finnst henni um alla sænsku blaðamennina sem voru mættir á hótel íslenska liðsins.

„Allt í einu erlendir blaðamenn farnir að hafa áhuga á okkur. Miðað við blöðin þá hafa þeir ekki mikla trú á okkur og þetta er áhugavert. Við gerum allt til að komast áfram," sagði Dagný að lokum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×