Fótbolti

Sex íslenskar stelpur hafa ekki fengið neina hvíld á mótinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd / Getty Images
Sex leikmenn íslenska hópsins hafa ekki fengið neina hvíld í fyrstu þremur leikjum íslenska liðsins á EM í Svíþjóð. Ein þeirra er landsliðsfyrirliðinn Katrín Jónsdóttir sem er ánægð með hvernig hefur gengið að stýra álaginu á mótinu. 



Auk Katrínar hafa þær Dóra María Lárusdóttir, Guðbjörg Gunnarsdóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir og Rakel Hönnudóttir spilað allar 270 mínútur mótsins til þessa. 



„Mér líður bara vel, 7, 9, 13," segir Katrín og brosir. „Það er búið að stýra mjög vel álaginu á þeim sem hafa spilað mikið í mótinu. Á milli leikjana höfum við náð að endurheimta vel og tekist að vera fullfrískar fyrir næsta leik," segir Katrín.



Liðið mætti Hollandi á miðvikudaginn en spilar síðan við Svía á morgun í fyrsta leik átta liða úrslita keppninnar. 



„Nú fáum við einn aukadag og það var rosalega gott. Fyrir þær sem hafa spilað mikið þá e rbúið að vera mjög rólegt á milli leikja þannig að maður hefur átt orku í næsta leik," segir Katrín.



Dagný Brynjarsdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir hafa líka allar verið í byrjunarliðinu í þessum þremur leikjum. Dagný og Sara Björk fóru meiddar/veikar af velli á móti Þýskalandi og Margrét Lára var tekin af velli á móti Hollandi eftir að hafa spilað fyrstu 242 mínúturnar á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×