Fótbolti

Þær sænsku skoruðu fleiri mörk en öll liðin í okkar riðli til samans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd / AFP
Sænska liðið hefur verið í miklum ham á EM kvenna í fótbolta en Ísland og Svíþjóð mætast á morgun í átta liða úrslitum keppninnar og fer leikurinn fram í Halmstad. Sænska liðið hefur skorað flest mörk á mótinu til þessa eða 9 mörk í þremur leikjum.

Svíar hafa skorað tveimur mörkum fleira en Frakkar en Spánverjar eru síðan í þriðja sætinu með fjögur mörk. Margrét Lára Viðarsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir hafa skorað einu mörk íslenska liðsins á mótinu.

Sænska liðið skoraði reyndar "bara" eitt mark í fyrsta leiknum á móti Dönum en þá létu þær sænsku verja frá sér tvær vítaspyrnur. Þær sænsku unnu síðan 5-0 sigur á Finnum og 3-1 sigur á Ítalíu í seinni tveimur leikjum sínum.

Það vekur vissulega athygli að sænska liðið er búið að skora marki meira en öll liðin í íslenska riðlinum til samans. Þýskaland (3 mörk), Noregur (3 mörk), Ísland (2 mörk) og Holland (0 mörk) náðu nefnilega aðeins að skora samtals 8 mörk í sex leikjum riðilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×