Fótbolti

Stelpurnar æfðu vítaspyrnur í gær

Óskar Ófeigur Jónsson í Halmstad skrifar
Mynd / KSÍ
Íslenska kvennalandsliðið er við öllu búið fyrir leikinn á móti Svíum á morgun en Ísland og Svíþjóð mætast þá í átta liða úrslitunum á EM í Svíþjóð. Íslenska liðið undirbýr sig fyrir allar mögulegar aðstæður og þar á meðal er vítaspyrnukeppni.



„Við æfðum vítaspyrnur í gær og ætlum að gera það aftur í dag. Ég spurði hverjar treystu sér til þess að taka víti. Svo æfum við þetta aftur á keppnisvellinum og þær geta sett sig aðeins inn í þetta og gert sér í hugarlund hvernig væri að taka víti hérna," sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari.



Margrét Lára Viðarsdóttir er vítaskytta liðsins og hún var spurð út í vítakeppni á blaðamannafundi í dag. Margrét Lára sagði að þær væru að undirbúa sig fyrir vítakeppni alveg eins og sænska liðið.



„Við ætlum að halda marki okkar hreinu hvort sem það er í 93 mínútur eða 120 mínútur. Við ætlum að halda hreinu og sættum okkur alveg að vinna 1-0 eða í vítakeppni. Við erum klárar fyrir allt og ætlum bara að vinna leikinn," sagði Margrét Lára á blaðamannafundinum í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×