Fótbolti

Hver kemur í staðinn fyrir Fríðu?

Óskar Ófeigur Jónsson í Halmstad skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir er ekki ánægð með það að vera í leikbanni í dag.
Hólmfríður Magnúsdóttir er ekki ánægð með það að vera í leikbanni í dag. Mynd/ÓskarÓ
Hólmfríður Magnúsdóttir verður ekki með íslenska landsliðinu í dag þegar liðið mætir Svíum í átta liða úrslitum á EM kvenna í fótbolta. Hólmfríður tekur út leikbann fyrir gulu spjöldin tvö sem hún fékk í riðlakeppninni.

Hallbera Guðný Gísladóttir hefur leikið í vinstri bakverðinum allt mótið og hún og Hólmfríður hafa unnið vel saman á vinstri vængnum.

„Ég veit ekki hver verður með mér. Síðast þegar við spiluðum á móti þeim þá var Fríða ekki heldur. Dóra María var þá á vinstri kantinum og leysti það mjög vel. Hver sem að kemur inn í liðið verður að koma inn með sömu baráttu og ég treysti hverjum sem er til að vera þarna," segir Hallbera og bætir við:

„Það er mikill missir í Fríðu. Hún er búin að vera að spila vel og er hættuleg þegar hún kemst í færin. Í svona leik verður bara næsti maður að koma inn og vera tilbúinn að leggja hundrað og tíu prósent á sig," segir Hallbera.

Rakel Hönnudóttir lék sem framherji í síðasta leik en hefur einnig verið út á hægri væng á mótinu. Hún er ein af þeim sem kemur til greina í vinstri kantstöðuna.

„Það er mikill missir fyrir okkur að vera ekki með Fríðu. Við erum með mjög sterkan hóp og það kemur bara maður í manns stað. Það er samt mjög leiðinlegt fyrir Fríðu að missa af þessum stórleik," segir Rakel.

Leikur Íslands og Svíþjóðar í átta liða úrslitum á EM kvenna í fótbolta hefst klukkan 13.00 að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×