Fótbolti

Hallbera: Fannst það athyglisvert að ég hafi farið í Húsmæðraskólann

Óskar Ófeigur Jónsson í Halmstad skrifar
Hallbera Guðný Gísladóttir.
Hallbera Guðný Gísladóttir. Mynd/Daníel
Hallbera Guðný Gísladóttir var hress og til í slaginn þegar blaðamannamaður Vísis hitti á hana í gær. Hallbera hefur spilað vel á mótinu og er einn af leikmönnum liðsins sem hefur ekki farið útaf í eina mínútu. „Ég held að það sé óhætt að segja að þetta sér stærsti leikurinn sem ég hef spilað," segir Hallbera.

„Við þekjum þær ágætlega, bæði úr deildinni hérna í Svíþjóð og svo erum við búnar að mæta þeim dálítið oft undanfarin ár og þar á meðal tvisvar á þessu ári. Við vitum alveg við hverju við eigum að búast," segir Hallbera.

Hallbera og félagar hennar í íslenska landsliðinu ætla að nota umræðuna um að leikurinn sé formsatriði fyrir Svía. „Ég held að þær séu aðeins einbeittari en svo að fara að hugsa að þær séu öruggar inn í næsta leik. Það er auðvelt að láta glepjast af þessari umræðu og það peppar okkur upp að það sé verið að skrifa svona. Við viljum sýna það að þær eru ekki að fara labba yfir okkur," segir Hallbera.

„Ég veit ekki hvort að það sé bara gott að við drullutöpuðum fyrir þeim á Algarve og að þær séu kannski með þann leik í hausnum. Við vitum samt að þetta verður ekkert svoleiðis á morgun (í dag)

Við vorum að spila frábærlega sem lið á móti þeim í Vaxjö, þær fengu ekki mörg færi og skoruðu síðasta markið í lokin. Mér finnst við vera að spila betur núna en við vorum að gera þá. Þær eru eflaust búnar að breyta einhverju en ef við höldum áfram að spila betur en við gerðum í vor þá mun ekki vera auðvelt fyrir þær að skora," segir Hallbera.

Sænska liðið er búið að skora níu mörk á EM eða sjö mörkum meira en íslenska liðið.

„Þær spiluðu á móti slöku liði Finna og unnu þá 5-0. Finnarnir áttu þá alls ekki nógu góðan dag og Svíarnir áttu á móti mjög góðan dag. Þær eru með frábært sóknarlið en við erum búnar að vera spila mjög vel sem heild. Það er ekki búið að vera auðvelt að skora á okkur. Það er helst að Þjóðverjarnir náðu að setja á okkur en annars erum við búnar að vera þéttar sem lið," segir Hallbera.

Hallbera er að spila í Svíþjóð og hefur eins og fleiri í liðinu farið í mörg viðtöl á sænsku.

„Maður er farin að tala þessa sænsku eins og að drekka vatn. Þeir eru búnir að spyrja út í fiskinn og svo fréttu þeir af því að ég hefði farið í Húsmæðraskólann í Reykjavík. Þeim fannst það athyglisvert. Þeir hafa í rauninni minnstan áhuga á fótboltanum. Þeir eru dálíitið búnir að ákveða það að Svíarnir séu að fara að vinna þetta. Þeir skrifa því meira um gullfiskinn og eitthvað svoleiðis. Við erum alveg klárar í þetta og það verður bara ennþá skemmtilegra að nudda salti í sárin eftir þennan leik," segir Hallbera að lokum.

Leikur Íslands og Svíþjóðar í átta liða úrslitum á EM kvenna í fótbolta hefst klukkan 13.00 að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×