Enski boltinn

Blanc útilokar tilboð í Rooney

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Wayne Rooney
Wayne Rooney MYND/NORDIC PHOTOS/GETTY
Laurent Blanc, þjálfari PSG hefur útilokað möguleikann að PSG bjóði í Wayne Rooney, leikmann Manchester United í sumar. Mikið hefur verið rætt um hvort Rooney fari frá Manchester United fyrir næsta tímabil.

Rooney bað um sölu frá félaginu í vor og heyrast sífellt háværari raddir um óánægju hans hjá félaginu. Chelsea var fyrsti klúbburinn til að gera tilboð í Rooney en því var snarlega neitað og sagði David Moyes, nýráðinn stjóri United að hann væri ekki til sölu.

PSG hefur allt frá yfirtöku ríkra eiganda frá Qatar spreðað seðlum í marga af bestu fótboltamönnum heimsins og voru þeir því nefndir þegar rætt var um næsta áfangastað Rooney. Blanc sem tók við PSG fyrir stuttu er hinsvegar ánægður með þá möguleika sem hann hefur.

„Þrátt fyrir að hann sé frábær leikmaður þá erum við með úrval frábærra sóknamanna. Rooney gæti spilað hvar sem er en hann er bestur í hjarta sóknarinnar. Við erum ekki að leita að sóknarmanni lengur heldur miðjumanni," sagði Blanc.

Félagið gekk nýverið frá kaupunum á Edinson Cavani og gerði hann að fimmta dýrasta fótboltamanni í sögunni þegar þeir keyptu hann á 64 milljónir evra frá Napoli. Eyðslan hætti ekki þar því í sömu viku tilkynntu þeir kaup á Marquinhos, brasilískum varnarmanni fyrir 35 milljónir evra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×