Enski boltinn

Peningar kaupa ekki titla segir Cech

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Peter Cech
Peter Cech Mynd/Gettyimages
Peter Cech var með áhugaverðar yfirlýsingar í viðtali hjá The Sun um helgina. Þar setti hann það fram að peningar hefðu aldrei unnið neitt og að Manchester City þyrftu að byggja lið til að geta barist um titilinn.

Þetta er sérstaklega athyglisvert þar sem lið Cech, Chelsea hefur ekki legið á seðlunum undanfarin ár líkt og Manchester City. Liðin eru bæði með forríka eigendur sem hika ekki við að kaupa bestu leikmenn heims.

„Peningar vinna ekki neitt, þú getur eytt eins miklu og þú vilt en þú verður að byggja upp lið fyrst. Það er mjög mikil samkeppni um sæti í liðinu hjá City og þeir eru með nýjan þjálfara með aðrar áherslur og væntingar,"

Cech býst við mikilli samkeppni á næsta tímabili.

„Það verða mörg lið sem munu berjast um titilinn og meistaradeildarsætin, City, United, Arsenal, Tottenham og Liverpool verða öll þarna og við verðum að vera tilbúnir. City eru búnir að styrkja sig vel, United eru ríkjandi meistarar, Tottenham voru hársbreidd frá Meistaradeildarsæti í fyrra og leikmenn Arsenal eru eflaust að verða þyrstir í titil."

„Við munum gera okkar besta til að vinna deildina, markmið okkar er að gera okkar besta. Við vitum hver markmið okkar eru og við munum fara í hvern leik til að vinna. Við vitum að þetta verður erfitt tímabil og við þurfum að vera tilbúnir í verkefnið," sagði Cech.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×