Fótbolti

Sara Björk: Miklir klaufar að fá á okkur mark svona snemma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd / Daníel
Sara Björk Gunnarsdóttir og félagar hennar í íslenska kvennalandsliðinu áttu erfitt með að leyna vonbrigðum sínum eftir 0-4 tap á móti Svíþjóð í átta liða úrslitum Evrópukeppninnar. Íslenska liðið lenti undir eftir þriggja mínútna leik og það mátti alls ekki gerast.

„Þetta var klárlega draumabyrjun fyrir þær. Þær lögðu upp með það fyrir leikinn að skora snemma og við vorum miklir klaufar að fá á okkur mark svona snemma," sagði Sara Björk Gunnarsdóttir.

„Hún fer í gegnum miðjuna og í fyrsta lagi átti miðjan að vera búin að taka við henni. Þegar hún fer í gegnum miðjuna þá á einhver varnarmaður að stíga upp. Þetta voru mistök hjá öllu liðinu og við áttum að vera miklu nær henni þegar hún skoraði fyrsta markið," sagði Sara.

„Við hefðum átt að vera meira á tánum því maður verður að vera á tánum á móti svona liði eins og Svíþjóð," sagði Sara Björk en hún vildi ekki meina það að leikurinn hafi verið búinn þegar Svíar komust í 3-0 eftir 20 mínútur.

„Það var erfitt að vera 3-0 undir í hálfleik en við ætluðum aldrei að gefast upp. Við erum ekki með þannig lið sem fer að hugsa um að þetta sé búið. Þetta var erfið byrjun en við ætluðum að koma inn í seinni hálfleik og sýna karakter. Við ætluðum að sýna smá stolt og reyna að vinna seinni hálfleikinn," sagði Sara.

„Ef við hefðum haldið hreinu í fyrri hálfleik þá hefðum við átt möguleika í þeim seinni," sagði Sara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×