Fótbolti

Sigurður Ragnar: Svíarnir voru alltof sterkar fyrir okkur í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd / Daníel
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, gat lítið annað en hrósað sænska liðinu eftir 4-0 sigur á Íslandi í átta liða úrslitum Evrópumótsins í dag. Svíarnir skoruðu þrjú mörk á fyrstu 20 mínútunum og unnu öruggan sigur.

„Þær fengu alltof auðvelt mark í byrjun. Við stigum ekki út í skotmann rétt fyrir utan teig. Það var töluverður aðdragandi að skotinu og við áttum klárlega að gera betur þar. Svo náðu þær að skora aftur á fimmtándu mínútu og þá var þetta orðið mjög erfitt," sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson.

„Við komum svolítið vonsviknar inn í hálfleik en gerðum betur í seinni hálfleik. Við spiluðum varnarleikinn mun betur og fengum nokkur færi líka. Við getum verið tiltölulega ánægð með seinni hálfeikinn," sagði Sigurður Ragnar og bætti við:

„Í dag voru Svíarnir alltof sterkar fyrir okkur og áttu sigurinn fullkomlega skilinn," sagði Sigurður Ragnar.

„Það er möguleiki á móti svona liði ef þú nærð að halda hreinu fyrstu tuttugu mínúturnar ef tempóið er mjög hátt í leiknum. Það gekk ekki í dag því miður. Við réðum aðeins betur við þær í seinni hálfleiknum. Svíarnir eru með frábært lið og þetta er eitt af þremur liðum sem eru langlíkast að fari alla leið. Svíarnir geta klárað mótið ásamt Þýskalandi og Frakklandi," sagði Sigurður Ragnar.

„Ég sagði við stelpurnar eftir leik að gleyma því ekki að líta á mótið í heild sinni. Þær geta verið stoltar af árangrinum á mótinu og þær hafa staðið sig hrikalega vel. Þó að þær séu súrar og svekktar með að hafa tapað í dag þá geta þær farið heim með mikið stolt," sagði Sigurður Ragnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×