Innlent

Brýn nauðsyn á nýrri nálgun á geðheilsuvandann

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
„Enginn skortur er á peningum í geðheilbrigðiskerfinu, það eina sem skiptir máli er hvernig þeim er varið.“ Þetta segir maður sem þekkir kerfið af eigin raun og ritar nú bók reynslu sína. Hann ítrekar að þörf sé á samfélagslegri nálgun á vandamálið.

Eins og fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær eru geðraskanir langstærsta orsök örorku hjá þeim tæplega 17 þúsund örorkulífeyrisþegum hér á landi. Hlutfallið nemur 40 prósentum. Þegar litið er á hóp þeirra sem eru með 75 prósent örorku og eru 30 ára eða yngri er hlutfallið enn hærra, eða tæplega 70 prósent.

Páll Matthíasson, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans sagði á Stöð 2 að nauðsynlegt væri að fá meira fé inn í málaflokkinn til að mæta kröfu um viðeigandi meðferð og starfsendurhæfingu.

Eins og fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær eru geðraskanir langstærsta orsök örorku hjá þeim tæplega 17 þúsund örorkulífeyrisþegum hér á landi.
Sigursteinn Másson, fjölmiðlamaður, þekkir þennan veruleika í gegnum starf sitt hjá Öryrkjabandalagi Íslands þar sem hann gegndi formennsku sem og af eigin raun, en hann greindist með geðhvörf fyrir tveimur áratugum.

Sigursteinn segir að skortur á peningum sé ekki vandamálið, heldur hvernig þeim er varið.

„Ég held að það sem skorti í raun og veru sé þessi heildræna nálgun á heilsu og vanheilsu. Að sama skapi vantar gott fyrirbyggjandi forvarnarstarf,“ segir Sigursteinn. „En við þurfum líka að komast frá þessari stofnanahugsun.“

Þannig sé brýn þörf fyrir hnitmiðaðar aðferðir, það er, að þjónustan sé færð til einstaklingsins með hópavinnu og stuðningi frá heimilum, í stað þess að fólk sé dregið inn á stofnanir.

Meðferðin verði að vera einstaklingsbundin svo að mögulegt sé að koma þessum einstaklingum út á vinnumarkaðinn.

„Það er eins og þessi stefna og hugsun hafi vikið. Ég veit ekki af hverju, kannski hafa menn einfaldlega gefist upp gagnvart bákninu.“MYND/ANTON
„Það er eins og þessi stefna og hugsun hafi vikið. Ég veit ekki af hverju, kannski hafa menn einfaldlega gefist upp gagnvart bákninu.“

„Menn vilja vel í þessu kerfi sem við lifum við í dag — vilja ná árangri — en menn verða að skilja það að við munum ekki ná almennilegum árangri í þessum ramma sem steyptur hefur í kringum geðheilbrigðiskerfið,“ segir Sigursteinn.

Sigursteinn mun miðla persónulegri reynslu sinni af geðheilbrigðiskerfinu í bók sem ritar nú. Hann er sannfærður um að bati sinn hefði verið með öðrum hætti hefði vandamálum hans verið mætt með samfélagslegri nálgun á geðraskanir.

„Ég er fullkomlega sannfærðu um það hefði verið öðruvísi. Inngripið hefði verið miklu minna,“ segir Sigursteinn að lokum.


Tengdar fréttir

Geðraskanir langstærsta orsök örorku

Geðraskanir eru langstærsta orsök örorku hér á landi en tæplega fjörutíu prósent af örorkulífeyrisþegum þjást af geðrænum sjúkdómum. Í þessum hópi er hlutfall geðraskana hæst hjá ungum karlmönnum eða um sjötíu prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×