Enski boltinn

Rodgers ítrekar að Suarez verði áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Suarez á æfingu með Liverpool í dag.
Suarez á æfingu með Liverpool í dag. Nordic Photos / Getty Images
Luis Suarez er kominn til Ástralíu þar sem að Liverpool er nú í æfingaferð en knattspyrnustjórinn Brendan Rodgers ítrekaði enn og aftur í nótt að félagið ætli sér ekki að selja kappann.

Suarez hefur verið sterklega orðaður við bæði Arsenal og Real Madrid en fullyrt er að fyrrnefnda félagið hafi gert Liverpool tilboð í kappann.

„Ég á fastlega von á því [að hann verði áfram hjá Liverpool],“ sagði Rodgers þar hann var spurður út í stöðu Suarez á blaðamannafundi í nótt.

„Það hafa verið miklar vangaveltur um framtíð hans en félagið hefur mikið álit á leikmanninum. Það er ekki nema að það berist tilboð sem er í samræmi við það að við munum íhuga eitthvað annað,“ sagði Rodgers enn fremur.

„En ég hef ekki áhyggjur af þessu. Hann er mikilvægur leikmaður í okkar liði. Ég mun svo ræða betur við hann, rétt eins og ég ræði við alla leikmenn.“

Suarez er kominn til Ástralíu eftir að hafa fengið lengra sumarfrí vegna þátttöku hans í Álfukeppninni fyrr í sumar. „Hann er í mjög góðu skapi. Hann æfir með okkur í dag og við munum svo ræða saman. Við höfum verið reglulega í sambandi í sumar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×