Enski boltinn

Tvö töp United í þremur leikjum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Danny Welbeck í baráttu við Brasilíumanninn Fabio. Welbeck tókst ekki að skora í leiknum ólíkt miðverði japanska liðsins.
Danny Welbeck í baráttu við Brasilíumanninn Fabio. Welbeck tókst ekki að skora í leiknum ólíkt miðverði japanska liðsins. Nordicphotos/Getty
Manchester United beið lægri hlut 3-2 gegn Yokohama F. Marinos í æfingaleik liðanna í Japan í dag. Um annað tap liðsins í þremur leikjum undir stjórn David Moyes er að ræða.

Heimamenn fengu óskabyrjun þegar Marquinhos skoraði eftir aðeins 26 sekúndur. Patrice Evra átti þá skelfilega sendingu á Marquinhos sem lét vaða af 30 metrum. David de Gea varið með tilþrifum en boltinn féll aftur fyrir fætur Brasilíumannsins sem kláraði færi sitt vel.

United jafnaði metin um miðjan fyrri hálfleik eftir vel útfærða skyndisókn. Robin van Persie og Wilfried Zaha unnu undirbúningsvinnuna og Jesse Lingard skoraði jöfnunarmarkið af stuttu færi. Þriðja mark Lingard í tveimur leikjum. Á 30. mínútu átti Adnan Januzaj aukaspyrnu sem fór af miðverði Yokohama liðsins og lak yfir línuna. Afar klaufalegt mark og Englandsmeistararnir komnir með forystu.

Bæði lið gerðu fjölmargar breytingar á liðum sínum í síðari hálfleiknum. Skiptingarnar virtust hjálpa United lítið því Japanarnir sáu um markaskorun í síðari hálfleik. Miðvörðurinn skoraði strax á 50. mínútu með skalla eftir skelfilegt úthlaup De Gea og slakan varnarleik Jonny Evans.

Danny  Welbeck fékk fín færi fyrir United til að skora snemma í hálfleiknum en nýtti þau ekki. Gestirnir áttu erfitt uppdráttar í hálfleiknum og virtust þurfa að sætta sig við jafntefli. Raunin varð hins vegar verri þegar varamaðurinn Fujita skoraði eftir slakan varnarleik United. Enn kom Patrice Evra við sögu en Frakkinn var fjarri sínu besta í Yokohama í dag.

Shinji Kagawa kom inn á sem varamaður í síðari hálfleik við mikinn fögnuð heimamanna. Kagawa komst þó aldrei í takt við leikinn frekar en aðrir leikmenn United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×