Fótbolti

"Hjálpaði mér að sitja fyrir nakin"

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Solo í leik með bandaríska landsliðinu. Solo hefur tvívegis unnið gullverðlaun á Ólympíuleikum með þjóð sinni.
Solo í leik með bandaríska landsliðinu. Solo hefur tvívegis unnið gullverðlaun á Ólympíuleikum með þjóð sinni. Nordicphotos/Getty
Hope Solo, markvörður bandaríska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, hefur vakið mikla athygli undanfarin ár fyrir vasklega framgöngu sína á milli stanganna.

Markvörðurinn 31 árs hefur þó ekki aðeins komið sér í sviðsljósið fyrir frammistöðu sína innan vallar. Solo hefur tekið þátt í raunveruleikaþættinum Dancing with the Stars, setið nakin fyrir, viðurkennt að hafa sængað hjá íþróttamanni í fremstu röð á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og gefið út ævisögu sína.

Í nýlegu viðtali við Huffington Post segir Solo að langt sé liðið síðan hana langaði til þess að gráta þegar skólabræður hennar sögðu við hana í partýjum: „Vá! Þú gætir barið mig í klessu."

„Á einhverjum tímapunkti áttaði ég mig á því að ég var stolt af því að vera íþróttamaður. Og veistu hvað? Ég ætla að berja þig í klessu," sagði Solo sem þykir hafa útlitið með sér.

„Ég veit að ég er falleg en líka sterk og ég held að það sé gott mál fyrir kvenmenn. Það tók langan tíma fyrir mig að átta mig á því að það sem ég væri að gera væri kvenfólki til góðs," segir Solo sem er fyrirmynd ungra knattspyrnuiðkenda vestanhafs og víðar.

Solo var spurð að því hvernig tilfinning það hefði verið að fækka fötum fyrir Body Issue, blað ESPN.

Forsíða ESPN Body Issue.Mynd/ESPN
„Ég var svo taugaóstyrk. Þetta tók svo langan tíma. Við vorum utan dyra og þeir voru að vökva götuna, vinna að lýsingunni og tilfinningin var ekki ósvipuð þeirri þegar maður er í göngunum fyrir knattspyrnuleiki," sagði Solo.

„Adrenalínið var í botni. Þetta tók þá svo langan tíma en að lokum kastaði ég frá mér sloppinum og tók á sprett niður götuna kviknakin."

Solo segir að takan hafi hjálpað sér og henni liðið vel að henni lokinni. Hún er stolt af líkama sínum, ekki síst öxlunum, sem ullu henni hugarangri í háskóla.

„Þá hafði ég svo miklar áhyggjur af breiðu öxlunum mínum að ég sleppti því að lyfta. Í dag eru axlirnar sá hluti líkamans sem ég er stoltust af."

Solo spilar í dag með Seattle Reign í bandarísku kvennaknattspyrnunni en liðið er staðsett í samnefndri borg á vesturströndinni. Solo spilaði með háskólaliði University of Washington í Seattle en hefur síðan flakkað á milli liða vestanhafs, í Frakklandi og Svíþjóð. Hún á að baki 137 landsleiki fyrir þjóð sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×