Lífið

Fékk 17.106 SMS

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Hér siglir túrstjórinn, Jón Þór, með Húna í baksýn.
Hér siglir túrstjórinn, Jón Þór, með Húna í baksýn.
„Drengurinn bað fólk um að senda mér sms og þakka fyrir túrinn. Ég er ennþá að fá SMS,“ segir Jón Þór Þorleifsson, túrstjóri áhafnarinnar á Húna.

Lokatónleikar áhafnarinnar á Húna fóru fram á Akureyri á laugardagskvöldið. Undir lok tónleikanna ávarpaði Mugison landsmenn og bað þá um einn greiða: „Áður en við förum í næsta lag langar mig að biðja ykkur um einn greiða. Þeir sem eru með GSM-síma, bæði þeir sem eru hér og landsmenn allir, takið upp símann og sendið SMS á hann Jón Þór sem að nennti að standa í þessu. Það er gaman að spila á gítar en það er erfitt að plana svona. Sendið „takk“ á Jón Þóri fyrir að nenna þessu,“ sagði Mugison og þuldi upp símanúmer túrstjórans í beinni útsendingu.

Landsmenn létu ekki segja sér þetta tvisvar og fóru smáskilaboðin að hrannast inn.

„Ég hringdi í Símann og fékk að vita SMS-fjöldann. Tæknistjórinn sagði mér að þetta hefðu verið 17.106 SMS allt í allt,“ segir Jón Þór, sem segist enn fá SMS á 30-60 mínútna fresti. „Ég þarf náttúrlega að eyða hverju einasta skilaboði svo ég er búin að lesa þau öll. Í fluginu frá Akureyri til Reykjavíkur náði ég að eyða 800 skilaboðum.“

Þó svo að Mugison hafi einungis beðið landsmenn um að senda einfaldar þakkir á Jón Þór voru sumir sem krydduðu örlítið upp á skilaboðin.

„Ég fékk alls konar skemmtileg skilaboð. Í einum þeirra stóð „Guð blessi þín störf í þágu þjóðarinnar,“ og annar bað um uppklappslag og sagðist vera með önd í gíslingu sem hann myndi ekki sleppa nema við spiluðum eitt lag til viðbótar.“

Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdarstjóri Landsbjargar, var rosalega ánægður með framtakið. „Þetta var í raun og veru miklu stærra og meira en við þorðum að vona. Það söfnuðust tæpar 24 milljónir sem er afskaplega kærkomin búbót fyrir björgunarsveitirnar.“

Spurður að því hvort til standi að endurtaka verkefnið segir Jón Svanberg það alveg óljóst. „Við hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg skoðum öll fjáröflunarverkefni sem koma inn mjög vel og svo er það bara vegið og metið hvað er gert.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.