Fótbolti

Eiður Smári ekki á leið til Portúgals

Portúgalskir fjölmiðlar hafa síðustu daga verið duglegir að orða Eið Smára Guðjohnsen við úrvalsdeildarfélagið Belenense.

Helgi Valur Daníelsson og Eggert Gunnþór Jónsson gengu á dögunum til liðs við félagið sem var einnig sagt áhugasamt um Eið Smára. Portúgalska dagblaðið Record hélt því fram.

Belgíska úrvalsdeildin hófst í gær og var Eiður Smári í byrjunarliði Club Brugge gegn Charleroi. Eftir leikinn hafnaði hann þessum sögusögnum algjörlega.

„Hvaða lið? Ég veit ekkert um þetta og hef svo sannarlega ekki heyrt neitt frá Portúgal eða neinum öðrum löndum,“ sagði Eiður Smári við belgíska fjölmiðla í gær. „Ég ætla ekki að fara frá Club Brugge.“

Arnar Grétarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá Club Brugge, tók undir þetta. „Svona sögusagnir eru fljótar að komast af stað. Eiður er á ekki á leið frá félaginu enda viljum við ekki missa hann.“

Magnús Agnar Magnússon, einn umboðsmanna Eiðs Smára, hafnaði þessu einnig alfarið í samtali við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×