Erlent

Fundur milli Ísraels og Palestínu í dag

Þorgils Jónsson skrifar
Tzipi Livni, aðalsamningamaður Ísraela, segist nokkuð vongóð varðandi viðræður við Palestínumenn í dag. Hún er hér með John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem hefur unnið hörðum höndum að því að koma á fundum milli deiluaðila.
Tzipi Livni, aðalsamningamaður Ísraela, segist nokkuð vongóð varðandi viðræður við Palestínumenn í dag. Hún er hér með John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem hefur unnið hörðum höndum að því að koma á fundum milli deiluaðila. NordicPhotos/AFP
Fulltrúar frá Ísrael og Palestínu hittast í Washington í Bandaríkjunum í dag, en þar verður rætt um áframhald á friðarviðræðum milli aðilanna með það að markmiði að koma á sjálfstæðu ríki Palestínu. Pattstaða hefur verið í viðræðunum síðustu fimm ár síðan viðræðum var síðast slitið, en samningamenn segjast nokkuð vongóð um framhaldið, þrátt fyrir málið sé afar flókið og mörg ljón séu enn í veginum.

T
zipi Livni, dómsmálaráðherra og aðalsamningamaður Ísraela, sagðist stefna til fundarins í dag „með varkárni, en þó vongóð.“

Hanan Ashrawi, talskona Palestínumanna sagði að  fyrirhugaðar viðræður færu fram undir afar krefjandi kringumstæðum og taldi meðal annars til í því sambandi pólitískan klofning í röðum Palestínumanna og harðlínuafstöðu Benjamíns Netanjahús, forsætisráherra Ísraels.

„En ég held að við skiljum öll hversu aðkallandi málið er,“ segir hún. „Ef við vinnum ekki hratt og ákveði gæti allt fallið um sjálft sig.“

Ísraelar liðkuðu fyrir viðræðunum í dag með því að tilkynna um að 104 palestínskum föngum, sem meðal annars voru dæmdir fyrir morð á ísraelskum borgurum, verði sleppt úr haldi á næstunni. Lausn þeirra er þó tengd framvindu friðarviðræðnanna.

Samhliða þessari ákvörðun samþykkti ríkisstjórn Ísraels í gær að öll skipti á landsvæðum sem hugsanlegir friðarsamningar gætu falið í sér, séu háð samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu. Landtaka Ísraela á hernumdum svæðum á Vesturbakka Jórdan-ár, er einn helsti ásteytingarsteinninn í samskiptum milli Ísraels og Palestínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×