Enski boltinn

Eigandi NFL-liðs keypti Fulham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Shahid Khan, nýr eigandi Fulham.
Shahid Khan, nýr eigandi Fulham. Nordic Photos / Getty Images
Shahid Khan, moldríkur eigandi NFL-liðsins Jacksonville Jaguers, hefur komist að samkomulagi við Mohamed Al Fayed um söluna á enska úrvalsdeildarfélaginu Fulham.

Al Fayed, sem er 85 ára gamall, hefur verið eigandi Fulham undanfarin sextán ár en á þeim tíma kom hann félaginu upp úr C-deildina og í úrvalsdeildina, þar sem liðið hefur fest sig í sessi.

Khan er 62 ára og fluttist til Bandaríkjanna frá Pakistan þegar hann var táningur. Hann hagnaðist á sölu á varahlutum í bifreiðar og hefur í dag þúsundir manna í vinnu. Talið er að kaupverðið á Fulham sé á milli 25 og 30 milljarðar.

„Það hafa verið forréttindi að fá að vera stjórnarformaður Fulham í sextán ógleymanleg ár,“ sagði Al Fayed við enska fjölmiðla í kvöld.

Khan segist ekki líta á sig sem eiganda Fulham heldur vörslumann félagsins fyrir hönd stuðningsmanna þess.

Þess má geta að Jaguars hafa verið í hópi lélegustu liða NFL-deildarinnar síðastliðin ár og unnu aðeins tvo af sextán leikjum á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×