Enski boltinn

Suarez fer með til Asíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Luis Suarez er í 28 manna leikmannahópi sem fer í æfingaferð Liverpool til Asíu og Ástralíu í mánuðinum þó svo að framtíð hans hjá félaginu virðist í óvissu.

Suarez missir af upphafi næsta tímabils þar sem hann er enn að taka út tíu leikja bann sem hann fékk fyrir að bíta Branislav Ivanovic, leikmann Chelsea, í apríl síðastliðnum.

Síðan þá hefur Suarez nokkrum sinnum sagt opinberlega að hann sé óánægður með lífið í Englandi en félagið neitar því þó að leikmaðurinn sé til sölu.

Suarez spilaði í Álfukeppninni fyrr í sumar og er því enn í sumarfríi, rétt eins og Pepe Reina og Sebastian Coates. Aðrir leikmenn halda af stað í æfingaferðina í dag en að öllu óbreyttu munu hinir bætast í hópinn síðar.

Fyrsti leikurinn verður gegn úrvalsliði Indónesíu í Jakarta á laugardaginn. Liverpool mætir svo Melbourne Victory í Ástralíu þann 24. júlí og svo Tælandi í Bangkok fjórum dögum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×