Fótbolti

Dóra María: Við getum ennþá náð öðru sætinu

Óskar Ófeigur Jónsson í Vaxjö skrifar
Mynd/ÓskarÓ
Dóra María Lárusdóttir og hinar stelpurnar í íslenska kvennalandsliðinu mæta Hollendingum í kvöld í hreinum úrslitaleik um sæti í átta liða úrslitunum á EM í Svíþjóð.

„Það er mjög gaman að fá úrslitaleik. Það er ákveðin spenna í hópnum en þetta var markmiðið sem við settum okkur í upphafi  og það er gaman að við séum ekki búnar að klúðra því. Þetta er allt öðruvísi en fyrir síðasta leikinn okkar á EM fyrir fjórum árum og miklu skemmtilegra," segir Dóra María.

Hollenska liðið er eina liðið í keppninni sem hefur ekki náð að skora en liðið gerði markalaust jafntefli við Þýskaland og tapið 0-1 á móti Noregi.

„Það kemur pínulítið á óvart að þær skuli ekki vera búnar að skora því þær eru með mjög sterka framlínu og eru bæði hraðara og teknískar. Það er lykilatriði fyrir okkur að halda hreinu en svo þurfum við líka að skora líka," segir Dóra María.

„Við ætlum að liggja aðeins til baka til að byrja með og nýta okkur það þegar þær færa sig framar á völlinn og finna opnu svæðin," segir Dóra María.

„Ég horfi kannski til þess að fara framar á völlinn en ég held að Sara og Dagný séu báðar klárar. Það verður kannski að koma í ljós á æfingu en ég held að það sé verra með Katrínu," segir Dóra María.

En undirbýr hún sig öðruvísi fyrir að spila bakvörð eða á miðjunni.

„Þetta eru ólíkar stöður og ég er meira að pæla í því hvernig andstæðingurinn spilar þegar ég er í bakverðinum. Þá lendi ég oftar í stöðunni einn á einn og þá er gott að vita á hvorn fótinn hún vill spila og hvort hún vilji stinga sig á bak við þig eða eitthvað svoleiðis," segir Dóra María en hvað þá með að skipta í miðjum leik?

„Það var kannski erfitt að skipta í svona leik eins og á móti Þýskalandi en yfirleitt finnst mér ekkert erfitt að vera að skipta um stöður. Mér fannst bara gaman að fá að kíkja á miðjuna í síðasta leik en auðvitað vorum við að verjast og ég gat lítið sótt," segir Dóra María.

„Þær eru með mjög sterka leikmenn og þar með talið er öll framlínan. Ég á von á því að þær reyni að nýta sér það í þessum leik. Við getum alveg stoppað þær því þær eru engar ofurhetjur. Ég sá ekki síðasta leik en sá restina á móti Þýskalandi. Þær voru að klúðra illa sínum færum og eru örugglega með lítið sjálfstraust," segir Dóra María.

„Þetta gæti farið út markatöluna líka þannig að það er spurning hvort að við þurfum að vera meðvitaðar um það. Hinn leikurinn er spilaður á sama tíma og við getum ennþá náð öðru sætinu. Það væri toppurinn að ná því," sagði Dóra María.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×