Fótbolti

Sigurður Ragnar: Jákvæður og neikvæður hausverkur

Óskar Ófeigur Jónsson í Vaxjö skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, hefur þurft að bregðast við óvissu ástandi í íslenska hópnum vegna meiðsla og veikinda miðjumanna liðsins. Sigurður Ragnar var spurður út í það á blaðamannafundi hvort að það hafi einhvern tímann verið erfiðara að velja liðið en fyrir leikinn á móti Hollandi í dag.

Tveir leikmenn hafa verið að glíma við meiðsli allt mótið en það eru þær Þóra Björg Helgadóttir og Sif Atladóttir. Guðbjörg Gunnarsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir hafa hinsvegar báðar komið inn í liðið og staðið sig nógu vel til að halda sæti sínu í liðinu. Við það bætist síðan að fjórir miðjumenn eru úr leik eða tæpir eftir Þýskalandsleikinn.

„Sumt er jákvæður hausverkur og sumt er neikvæður hausverkur. Það er neikvætt fyrir okkur að það er mikið af meiðslum og það hafa verið svolítil meiðsli í mótinu. Það veldur okkur smá hausverki því við vitum ekki fyrr en eftir æfinguna í kvöld (í gær) hvernig við getum stillt upp liðinu," sagði Sigurður Ragnar.

„Hitt að leikmenn sem hafa fengið tækifæri hafi staðið sig mjög er mjög jákvætt. Ég vill hafa slíkan hausverk og helst vil ég hafa slíkan hausverk með allar stöðurnar í liðinu," sagði Sigurður Ragnar.

„Það er erfitt að velja byrjunarliðið og erfitt að taka ákvörðun um leikmenn sem hafa staðið sig vel en byrja síðan ekki inná. Það er samt ágætt að þjálfarinn fái hausverk stundum," sagði Sigurður Ragnar léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×