Innlent

Bjartur lokar vegna veðurs

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Guðrún Vilmundardóttir er útgáfustjóri Bjarts
Guðrún Vilmundardóttir er útgáfustjóri Bjarts Vísir/Anton Brink
Í áraraðir hefur það verið regla hjá bókaforlaginu Bjarti að loka höfuðstöðvunum og gefa starfsfólki frí þegar hitinn fer upp í fjórtán gráður.

Sú regla hefur ekki skilað starfsfólki mörgum frídögum það sem af er sumri.

Þó hefur fjórtán-gráðu viðmiðið komið fólki vel í gegnum árin og glatt það innilega á góðum dögum.

Bókaforlagið hefur stundum verið lokað dögum saman, alla vega eftir hádegi, á meðan glaðir prófarkalesarar og myndritstjórar frílista sig.

Á fundi í hádeginu var ákveðið að breyta þessu áragamla viðmiði.

Guðrún Vilmundardóttir, útgáfustjóri Bjarts, segist ánægð með framtakið.

„Það var tekist á á starfsmannafundi í hádeginu. Hinn íhaldssami armur vildi engu breyta - en við stóðum á okkar og  fengum þessar breytingar í gegn. Það hafa ekki verið mörg tækifæri til að fá sólarfrí það sem af er sumri,“ segir Guðrún, létt í bragði.

Formanni starfsmannafélagsins hefur verið falið að kveða upp úr um það hvenær veðrið er nógu gott til þess að gefa sólarfrí, en hitaviðmiðið hefur verið aflagt. Að minnsta kosti að sinni.

Höfuðstöðvar Bjarts verða lokaðar frá klukkan 3 í dag, vegna veðurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×