Fótbolti

Dóra María: Siggi var bara grátandi af gleði eins og við

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dóra María
Dóra María Mynd / Óskaró
Dóra María Lárusdóttir og félagar hennar í íslenska kvennalandsliðinu eru komnar áfram í átta liða úrslit á EM í Svíþjóð eftir 1-0 sigur á Hollandi í dag í hreinum úrslitaleik um sæti meðal þeirra átta bestu.



„Fyrri hálfleikurinn spilaðist mjög vel og alveg eins og við lögðum upp með. Við vorum þéttar til baka en svo náðum við að halda boltanum vel og finna glufur á vörninni þeirra," sagði Dóra María Lárusdóttir sem spilar nú hægri bakvörðinn eins og hún hafi aldrei gert neitt annað.



„Það er eitthvað sem ég má laga enda ekki með mikla reynslu í þessari stöðu. Þetta er allt að koma. Allan seinni hálfleikinn var ég með einn hraðasta og besta sóknarmann Evrópu. Það var pínulítið stressandi en það gekk," sagði Dóra María en hvernig var stundin þegar lokaflautið gall.



„Það var gríðarleg gleði í lokin. Siggi var bara grátandi af gleði eins og við. Hann gaf okkur bara fimmu og sagði að við mættum vera stoltar," sagði Dóra María.



„Ég vona að við séum ekki orðnar saddar. Þetta voru upphafsmarkmiðin en svo vissum við að við þyrftum síðan að setjast niður aftur og ræða næstu markmið," sagði Dóra María.



„Vonandi er mikið eftir af mótinu enda er veðrið svo fínt hérna," sagði Dóra María í léttum tón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×