Fótbolti

Sif: Gleypti tíu flugur þegar ég hljóp til að fagna með þeim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd / Óskaró
Sif Atladóttir kom inn í miðja íslensku vörnina og átti frábæran leik. Hún pakkaði saman framherjanum Manon Melis sem reyndi að komast sem lengst frá henni í seinni hálfleiknum.

„Þetta var æðislegt. Það er erfitt að spila í gegnum okkur þegar við spilum svona vel," sagði Sif hlæjandi í leikslok. „Það var pínu stress fyrstu tíu mínúturnar en svo fann maður bara hvað þær urðu óþolinmóðar og stressaðar. Eftir að við skorum fóru þær að vera reiðar út í hvora aðra því það gekk ekkert upp hjá þeim," sagði Sif.

Manon Melis, stærsta stjarna hollenska liðsins, gafst upp á baráttunni við Sif og færði sig út á vinstri kantinn í seinni hálfleiknum.





„Mér finnst þetta svolítið oft hjá henni og hún vill helst ekki vera nálægt mér. Þá tók Dóra bara við og kláraði hana. Þetta var ekkert mál," sagði Sif.

„Ég get sagt það núna að ég var fegin að hafa fengið hvíldina á móti Þýskalandi. Ég var ekki viss um að fá að spila í dag því Glódís stóð sig vel og þær Kata og Glódís ná rosalega vel saman. Ég fékk tækifærið í dag og ákvað að nýta það eins vel og ég gat," sagði Sif.



„Allt sem fór fram hjá okkur í vörninni það átti Gugga í markinu. Við vorum þarna inn á vellinum fyrir hverja aðra," sagði Sif en hvernig sá hún sigurmarkið hjá Dagnýju Brynjarsdóttur.



„Það er búið að skamma mig svo mikið fyrir að vera að horfa á fótboltann þegar við erum í sókn. Ég var svo upptekin af þvi hvar mínír leikmenn voru en svo horfi ég upp og þá er Dagný að skalla þennan frábæra bolta frá Hallberu inn. Ég held að ég hafi gleypt tíu flugur þegar ég hljóp til að fagna með þeim," sagði Sif en hún kom lang fyrst inn á völlinn eftir hálfleikinn.



„Ég stirna svolítið upp ef ég bíð of lengi. Ég hlustaði á ræðuna frá Sigga en fór strax út þegar hún var búin. Ég var bara að skokka til að halda mér heitri," sagði Sif.



„Þetta voru ógleymanlegar 90 mínútur og við fengum frábæran stuðning. Ég er frá því að ég hafi fellt nokkur tár þegar ég sá alla fjölskylduna upp í stúku, manninn, mömmu og tengdaforeldrana. Þetta var æðisleg stund," sagði Sif að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×