Fótbolti

Sigurður Ragnar: Gaman að sjá Guggu springa út

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg Gunnarsdóttir
Guðbjörg Gunnarsdóttir Mynd/ Getty Images
Guðbjörg Gunnarsdóttir steig ekki eitt feilspor í kvöld þegar íslenska kvennalandsliðið í fótbolta tryggði sér sæti í átta liða úrslitum með 1-0 sigri á Hollandi í lokaleik sínum í B-riðli.



Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari, hrósaði markverði sínum eftir leikinn en Guðbjörg hefur komið frábærlega inn í liðið eftir að Þóra Björg Helgadóttir meiddist í aðdraganda mósins. 



„Guðbjörg er búin að eiga frábæra leiki í mótinu og hefur virkilega gripið tækifærið þegar hún fékk það. Það er frábært fyrir hana. Við erum búin að horfa á hana sem markmann númer tvö í mörg ár. Hún hefur fengið einn og einn leik en ekki svona stóra leiki og ekki svona marga leiki í röð," sagði Sigurður Ragnar.



„Hún hefur virkilega staðið undir því og staðið sig eins og hetja. Það er gaman að sjá hana springa út," sagði Sigurður Ragnar.



Guðbjörg var sérstaklega vakandi í leiknum í kvöld og greip hvað eftir annað inn í þegar hollenska liðið reyndi sendingar inn á teiginn.



„Við ræddum um það við hana að spila framar og Dóri markmannasþjálfari fór yfir það með henni. Hún bjargaði oft vel því Hollendingarnar eru fljótar og þær reyna oft stungusendingar og langar þversendingar. Hún var vel vakandi og greip vel inn í sem er mikilvægt fyrir okkur," sagði Sigurður Ragnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×