Fótbolti

Sænsku blaðamennirnir forvitnir um þátttöku Lagerbäck

Óskar Ófeigur Jónsson í Vaxjö skrifar
Sænsku blaðamennirnir voru forvitnir að fá að vita hversu mikið Lars Lagerbäck hjálpaði íslenska kvennalandsliðinu í aðdraganda sigursins á Hollandi á EM í gær en Sigurður Ragnar Eyjólfsson var spurður út í þetta á blaðamannafundi efrir leikinn.

„Ég þekki hann vel. Hann er búinn að vera í kringum mitt lið og ég er búinn að vera í kringum hans lið til að læra. Ég hef þekkt Lars í langan tíma. Lars var á þessum leik og hann var með okkur í undirbúningnum fyrir þennan leik," sagði Sigurður Ragnar.

„Aðstoðarmaður hans hjá karlaliðinu, Heimir Hallgrímsson, er í þjálfarateyminu okkar og hann er að hjálpa okkur að leikgreina mótherjana," sagði Sigurður Ragnar.

Sænski blaðamaðurinn spurði Sigurð Ragnar síðan af því hvort að Lagerbäck myndi hjálpa honum líka ef að það færi svo að íslenska liðið mætti Svíþjóð í átta liða úrslitunum.

„Hann er þjálfari karlalandsliðsins og það hefur verið frábært að njóta góðs af þekkingu hans. Ég hef lært mikið af honum og við erum mjög ánægð að hann skuli vera með okkur á mótinu. Ég veit ekki hvort að hann hjálpi okkur fyrir fleiri leiki því ég hef ekki talað við hann um það," sagði Sigurður Ragnar og bætti við:

„Lagerbäck átti afmæli í gær og hann var mjög ánægður með sigurinn. Þetta var afmælisgjöf til hans," sagði Sigurður Ragnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×