Fótbolti

Margrét Lára: Sýnir hvað fótbolti getur verið einfaldur og fallegur

Óskar Ófeigur Jónsson í Vaxjö skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir með dóttur landsliðsþjálfarans, Emblu Björg Sigurðardóttur.
Margrét Lára Viðarsdóttir með dóttur landsliðsþjálfarans, Emblu Björg Sigurðardóttur.
„Ég er að komast niður á jörðina. Þetta var mikill draumur sem við vorum að upplifa í gær en við þurfum að koma okkur hratt niður á jörðina því að eru átta liða úrslitin sem bíða okkar. Við erum ekki í þessu til að vera með," segir Margrét Lára Viðarsdóttir á hóteli íslenska landsliðsins í dag.

„Við ætlum að sjálfsögðu að fara í leikinn til að vinna og komast í fjögurra liða úrslit," sagði Margrét Lára en íslenska liðið tryggði sig inn í átta liða úrslitin á EM í Svíþjóð með því að vinna Holland 1-0 í gær.

„Það er búin að vera mikil gagnrýni á liðið og eflaust hafði enginn trú á þessu. Við höfðum það og það sýnir það bara að þegar hópur fólks kemur saman sem stefnir í sömu átt með sömu markmið og hefur virkilega trú á verkefninu þá getur allt gerst. Ég held að við höfum sýnt það í gær," segir Margrét Lára.

„Við komum rosalega flott inn í leikinn og fyrri hálfleikurinn var besti hálfleikurinn sem við höfum spilað, allavega á þessu móti. Seinni hálfleikurinn þróaðist svolítið út í það að við vorum að sparka boltanum fram og verjast. Það gekk upp í gær sem betur fer og okkur var ekki refsað fyrir það," segir Margrét Lára.

„Við vorum þéttar til baka og spiluðum frábæra vörn. Það þarf ekki alltaf að vera fallegasti fótboltinn sem er árangursríkastur," sagði Margrét Lára.

„Sigurmarkið var rosalega fallegt. Þetta var glæsilegt hlaup hjá Dagnýju og frábær fyrirgjöf frá Hallberu. Þetta sýnir kannski einfaldleika fótboltans og hvað fótbolti getur verið einfaldur og fallegur. Þetta var frábært mark og það var þvílíkur karakter og liðsheild sem skilaði okkur þessum sigri," sagði Margrét Lára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×