Fótbolti

Sænska pressan segir sænska liðið öruggt inn í undanúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku stelpurnar að skoða sænsku blöðin.
Íslensku stelpurnar að skoða sænsku blöðin. Mynd/ Daníel
Sænsku blöðin fjölluðu ítarlega í morgun um komandi leik Svíþjóðar og Íslands í átta liða úrslitunum á EM í fótbolta en leikurinn fer fram í Halmstad á sunnudaginn.

Bæði stórblöðin Expressen og Aftonbladet eru á því að það sé formsatriði fyrir sænska liðið að klára leikinn og að sænski hópurinn hafi fagnað því eins og sigri þegar þær lentu á móti Íslandi í átta liða úrslitunum.

Aftonbladet er stórtækara í sínum skrifum. Þar ein opna með fyrirsögninni. Fögnuðu í nótt," með tilvísun í það þegar kom í ljós að sænska liðið mætir Íslandi og á næstu opnu segir; "Sænsku stelpurnar í undanúrslit". Blaðamaður Aftonbladet segir að íslensku stelpurnar muni berjast í leiknum en ættu ekki að vera neitt vandamál fyrir sænska liðið.

Aftonbladet spáir leiknum 3-1 fyrir Svía, en blaðið spáir einnig Þýskalandi (4-0 sigur á Ítalíu), Noregi (2-1 sigur á Spán) og Frakklandi (3-0 sigur á Danmörku) sæti í undanúrslitunum.

Expressen fer yfir byrjunarlið liðanna í dag undir fyrirsögninni "Nu Lottar vi bort Ísland" með vísun í nafn fyrirliðans Lottu Schelin sem var í miklu stuði í tveimur vináttuleikjum á móti Íslandi fyrr á þessu ári.

Vörn, miðja og sókn íslenska liðsins fá tvo í einkunn af fimm mögulegum en Guðbjörg Gunnarsdóttir markvörður fær þrjá í einkunn. Sænska sóknin fær fullt hús, markið og miðjan fá fjóra og sænska vörnina fær þrjá í einkunn.

Expressen spáir að Svíþjóð, Þýskaland, Spánn og Frakklandi komist áfram í undanúrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×